150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er alltaf einhver óvissa um framtíðina og það eru blikur á lofti víða í alþjóðaviðskiptum. Það getur bitnað á viðskiptakjörum okkar Íslendinga, það getur dregið úr hagvexti á öðrum svæðum, við getum farið inn í langt skeið lágvaxta og lítils vaxtar. Þetta eru allt saman óvissuþættir.

Það sem við notum til grundvallar eru hins vegar opinberar hagspár. Það er það sem við höfum í höndunum. Við gerum ekki okkar eigin hagspá. Við gerum ekki ráð fyrir betri eða verri niðurstöðu, við bara notum opinberar tölur og það er í samræmi við lögin.

Í fjármálastefnunni sem var uppfærð núna í júní var skapað nýtt óvissusvigrúm. Það má alveg deila um hvort það sé nægilega mikið. Við höfum áður rætt um það hvort við eigum að fara í hagsveifluleiðrétt afkomumarkmið. Sú umræða mun halda áfram. Aðalatriðið er að ríkissjóður er í góðri stöðu til að taka á því ef samdráttarskeiðið verður langdregnara en fyrirséð er í dag.

Í frumvarpinu er birt tafla sem sýnir að spá Hagstofunnar er með þeim bjartsýnni af mörgum sem úr er að velja en allar gera þær þó ráð fyrir vexti á næsta og þarnæsta ári. Í því samhengi eru svo sem ekki erfiðir tímar fram undan þó að það hafi verið mjög kraftmikið hagvaxtarskeið í langan tíma að undanförnu.

Samfylkingin saknar þess eins og venjulega að sjá ekki skattahækkanir. Ég á voðalega erfitt með að skilja um hvaða fólk er nákvæmlega verið að tala. Það er talað um fólkið í hátekjuþrepinu. Þetta er sama fólkið og var verið að tala um í þingsal fyrir ekki mörgum misserum og tengdist læknadeilunni. Þá komu menn hingað upp og sögðu: Það verður að hækka laun lækna. Þau þurfa að hækka um 30–40%, jafnvel 50%, annars fara þeir allir úr landi. Við verðum að gera þetta og fjármálaráðherra ber ábyrgð á því að ekki sé búið að ganga frá samningum við lækna. (Forseti hringir.) Svo koma menn í annarri ræðu og segja um þetta sama fólk: Það verður að hækka skatta á þetta fólk. Ég skil ekki þessa pólitík.