150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það eru stórir hópar í þjóðfélaginu sem okkur finnst að hafi úr of litlu að spila. Fyrir því eru ýmiss konar ástæður. Ein var nefnd hér, það eru stórir hópar í þjóðfélaginu sem eru komnir á efri ár, inn á lífeyrisárin, án þess að hafa byggt upp nein réttindi neins staðar. Fyrir því eru margvíslegar ástæður sem ég ætla ekki að rekja hér en það er mjög íþyngjandi fyrir eitt samfélag að taka á slíkum vanda. Sá vandi er að sliga heilu þjóðirnar víða annars staðar. Okkur hefur þó tekist, eins og t.d. má sjá í gögnum á tekjusagan.is, að stórbæta þessi kjör. Við höfum sömuleiðis gögn sem hafa komið fram í þingskjölum sem sýna að stóra breytingin sem var gerð undir lok árs 2016 hefur snarlagað þessa stöðu. En vinnan verður að halda áfram.

Hér er spurt hvort það sé rétt að þessi hópur hækki eins og lægstu laun en ekki eins og laun almennt eins og samið hefur verið um í kjarasamningum. Breytingar núna um áramótin byggjum við á lagaákvæðinu eins og hefur verið gert. Við höfum hins vegar á undanförnum árum hækkað í gegnum kerfisbreytingar þessa hópa sérstaklega umfram aðra. Þar er ég að vísa til lífeyrisþeganna. Þessi vinna þarf að halda áfram.

Það sem ég vil vekja athygli á er ef við spyrjum: Hvað einkennir þá hópa sem njóta mest þeirrar skattalækkunar sem við erum hér að boða? Hvaða hópar eru einmitt við 325.000 kr. mánaðarlaunamarkið eða tekjumarkið? Þá er svarið: Hóparnir sem hv. þingmaður er að spyrja um, öryrkjar, aldraðir og fólk á lágmarkslaunum er fjölmennasti hópurinn á því tekjubili. Tekjuskattslækkun okkar er sérstaklega (Forseti hringir.) beint að þessum hópum til að ná til þeirra og bæta þeirra kjör. Umræða um það hvað við ætlum að gera fyrir þessa hópa þarf að taka mark af því sem við erum að gera í skattamálunum.