150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta endurspeglar pínulítið gamla fyrirkomulagið í opinberum fjármálum þar sem er bætt við síðar. Í lögum um opinber fjármál er einmitt kostnaðaráætlun sem á að gera, forgangsröðun sem á að gera og á að koma fram í fjármálaáætlun og fjárlögum. Hana vantar. Þetta er fyrsta skilyrðið sem þarf að uppfylla til að geta klárað allt annað samkvæmt lögum um opinber fjármál. Ég er að tala um lög um opinber fjármál en ekki þingsályktun um fjármálaáætlun. Það vantaði ýmislegt í hana varðandi forgangsáætlun, kostnaðargreiningu og ábatamat. Það vantar skýrslu um tölur um íbúaþróun til framtíðar næstu áratuga. Hún er ekki komin enn þá, samt á hún að vera komin.

Það eru þessi atriði sem mér finnst einmitt vanta. Það er byrjað á röngum fæti, það er byrjað á fjárlögunum eins og þau voru alltaf, ekki eins og þau eiga að vera. Það er byrjað á því að fylla upp í þennan risatexta, sem er sem betur fer aðeins minni en hann hefur verið, en ekki byrjað á kostnaðarmati og ábatagreiningu þeirra verkefna sem stjórnvöld leggja til. Ef við byrjum þar er afgangurinn ekkert mál, ekki neitt. Þá sjáum við af hverju við ættum að fjármagna hitt og þetta verkefni.

Meginlínan, meginreglustikan sem ég er að kalla eftir, sem er ekki verið að fara eftir, er að þegar ég sé upphæð til stofnunar eða til verkefnis verð ég að spyrja: Af hverju þessi upphæð en ekki einhver önnur? Þannig er það t.d. með Landspítalann, heilbrigðiskerfið. Af hverju er verið að segja að það sé rekstrarvandi? Af hverju er ekki sagt að þar sé fjármögnunarvandi? Við vitum það ekki af því að við vitum ekki hver krafan er um þjónustu. Við vitum ekki markmiðin sem eru þar undir og þar af leiðandi er sú upphæð sem við samþykkjum í fjárlögum bara ágiskun. Það er ekki eitthvað sem við eigum að sætta okkur við á þingi (Forseti hringir.) þar sem fjárveitingavaldið er.