150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta framsögu á því sem mætti kalla fjárlagafrumvarp eins og ráðherra myndi gjarnan vilja hafa það, einhvers konar draumsýn á ríkisfjármálin á næsta ári. En því miður, enn eina ferðina, í engum tengslum við þann efnahagslega veruleika sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum ítrekað gagnrýnt þessa ríkisstjórn fyrir óskhyggju þegar kemur að fjárlagagerðinni og þá yfirlýstu stórsókn í ríkisútgjöldum sem þessi stjórn er stofnuð um. Þessi draumsýn hefur sennilega aldrei verið meiri en einmitt núna.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. ráðherra, hvernig í ósköpunum standi á því, þegar við stóðum hér fyrir ári síðan og ræddum fjárlagagerð fyrir árið 2019, yfirstandandi ár, þurftum síðan að endurskoða hana frá grunni í vinnu fjárlaganefndar í nóvember, þurftum síðan að endurskoða efnahagslegar forsendur hennar enn eina ferðina í umræðu um nýja fjármálastefnu hér í vetur, sjáum síðan í útkomuspá fyrir þetta ár að ekki einu sinni þær forsendur ætla að ganga eftir heldur er hér a.m.k. 40 milljarða veikleiki í framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2019 — að engu að síður er, eins og ekkert hafi í skorist, komið fram með fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 og hér er rósrauð og björt framtíð. Tekjur munu, fyrir eitthvert kraftaverk, taka við sér strax á næsta ári. Útgjöld munu ekki fara neitt úr böndunum þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi misst tökin á ríkisfjármálunum nú þegar. Það er 20 milljarða tekjuveikleiki á árinu 2019. Það eru a.m.k. 20–30 milljarða útgjaldaaukning frá endurskoðuðum forsendum ársins 2019. Hvernig í ósköpunum, hæstv. fjármálaráðherra, eigum við að taka þetta plagg trúanlegt nú?