150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessa spurningu því að kjarni máls er einmitt hvar þetta vandamál brýst fram. Það brýst fram í þeirri staðreynd að við erum enn eina ferðina að svelta opinbera fjárfestingu. Þegar við horfum á langtímameðaltal opinberrar fjárfestingar hér á landi vantar a.m.k. 400 milljarða til að við náum í skottið á okkur eftir langvarandi áratugasvelti í opinberri fjárfestingu, langt undir meðaltali. Um þetta eru opinberar skýrslur sammála. Samtök iðnaðarins hafa m.a. tekið þetta saman og eyrnamerkt hvar þetta fjárfestingarsvelti liggur. Enn eina ferðina erum við að horfa á fjárlagafrumvarp þar sem fjárfestingarstigið er, þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um hið gagnstæða, langt undir sögulegu meðaltali. Sögulegt meðaltal eðlilegs ástands hér á landi er 4,5% af landsframleiðslu og ríkisstjórnin, með yfirlýstri stórsókn í fjárfestingum, er í 3,7–3,8% af landsframleiðslu í fjárfestingarstigi.

Þetta heitir að éta útsæðið, hæstv. fjármálaráðherra, þegar reglubundin útgjöld ríkissjóðs eru belgd út, þegar báknið er blásið út í hið óendanlega, en við höfum ekki efni á því að standa undir nauðsynlegum fjárfestingum í innviðum okkar. Það eru innviðirnir sem er verið að svelta enn eina ferðina á kostnað stórsóknar ríkisstjórnarinnar í útgjaldaaukningu á öllum sviðum, reyndar ótrúlega markmiðslausrar stórsóknar því að markmiðið virðist vera útgjaldaaukningin ein og sér. Við sjáum enn og aftur í þessu fjárlagafrumvarpi engin skýr markmið um hvernig við erum að ráðstafa fjármunum, þessum 900 milljörðum sem við erum að tala um, hvað við erum að fá fyrir þá eða hvað eigi að sækja með þeirri útgjaldaaukningu sem þar er boðuð.

Það er alla vega alveg klárt mál að það er ekki verið að sækja í opinberri fjárfestingu, nauðsynlegri opinberri fjárfestingu. Skilaboðin sem við fáum, sér í lagi íbúar á suðvesturhorninu, eru: Ef það á að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar sem hafa verið sveltar (Forseti hringir.) árum saman þá verðið þið að borga aukalega fyrir það. Það heitir skattahækkun, hæstv. fjármálaráðherra.