150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:32]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég ætla bara að taka einn punkt út úr svarinu sem er kolefnisgjaldið. Hæstv. ráðherra talar um að við kaupum bara rafmagnsbíl og verðum umhverfisvæn um leið. Í fyrsta lagi gefur Hagstofan út að 50% af öllum launþegum í landinu eru með undir 441.000 kr. á mánuði í tekjur. Telur hæstv. fjármálaráðherra að einstaklingur sem fær útborgað rúmlega 300.000 kr. hafi ráð á því að fjárfesta í rafmagnsbíl? Hvað kostar rafmagnsbíll í dag? Á hverjum mun það bitna í rauninni að þurfa að greiða hækkað kolefnisgjald? Fátæku fólki sem keyrir um á gömlu druslunni, varla nógu dekkjaðri til að komast áfram í umferðinni. Það hefur hvorki ráð á því að endurnýja gamla bílinn né kaupa sér rafmagnsbíl. Við getum ekki horft fram hjá því að það er svona hópur í samfélaginu, allt of stór hópur. Ef við ætlum virkilega að vera samkvæm sjálfum okkur og fara í orkuskipti verðum við að gera miklu betur fyrir þennan hóp til að gefa honum kost á því að komast í þau ökutæki sem hér er gjarnan verið að boða.

Þá er líka spurning um annað þegar við erum að tala um væntanleg veggjöld og ég veit ekki hvað og hvað. Telur ekki hæstv. fjármálaráðherra ástæðu til þess núna að skoða, í því breytta landslagi sem við horfum upp á, okkar miklum vinsældum hvað lýtur að okkar hnattrænu staðsetningu á norðurslóðum, að hugsanlega mættum við gera ótrúlega góða samninga við þessa frábæru vini sem eru svona æstir í að koma hingað og vera hér? Við gætum gert samninga sem væru einstakir í Íslandssögunni.