150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fara yfir eiginlega mikilvægasta kaflann í þessu frumvarpi sem er að finna á bls. 88 og áfram, Staða og horfur í efnahagsmálum. Það skiptir verulegu máli hvað frumvarpið varðar hver framtíðin verður í efnahagsmálum á komandi misserum og hefur að sjálfsögðu áhrif á tekjuhlið frumvarpsins og gjaldahliðina líka. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt áherslu á að það sé verið að fylgja hagspám, fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi sína eigin hagspá sem er frá Hagstofu Íslands. En það kemur reyndar fram á bls. 88 að enginn greiningaraðili spái meiri hagvexti árið 2020 en Hagstofan.

Herra forseti. Ég hefði talið eðlilegra að menn bæru saman spár og reyndu að finna eitthvert meðaltali til að fá raunsærri sýn á það hvernig framhaldið verður í efnahagsmálum. Það vekur upp spurningar um hvort það eigi alltaf að fara eftir spánni sem spáir mestum hagvexti, eins og í þessu tilfelli

Á bls. 91 í frumvarpinu er kafli um efnahagslega óvissuþætti. Það er mjög athyglisverður kafli og ég held að allir þingmenn ættu að lesa hann og kynna sér hann vel vegna þess að það er margt mjög áhugavert sem kemur þar fram sem getur haft áhrif á þetta frumvarp og getur gert að verkum að það þurfi að endurskoða tekjuáætlun o.s.frv., innan skamms, jafnvel þegar ný hagvaxtarspá kemur núna á haustmánuðum. Það segir t.d. á bls. 91: „Óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum er meiri um þessar mundir en oft áður.“ Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni. Það segir líka: „Meiri líkur eru á því að efnahagshorfur ársins 2020 breytist til verri vegar en að þær batni að ráði.“ Það kemur líka fram að hætta sé á niðursveiflu í okkar helstu viðskiptalöndum og það er að sjálfsögðu áhyggjuefni. Og eins og minnst var á hér fyrr er viðskiptastríð Bandaríkjanna við Kína. Þetta er allt áhyggjuefni. Það kemur fram í kaflanum að vextir á tíu ára ríkisskuldabréfum í Bandaríkjunum séu nú lægri en á þriggja mánaða víxlum og að slíkt hafi sögulega verið fyrirboði efnahagsþrenginga þar í landi. Þetta er mjög athyglisvert vegna þess að við þekkjum það að upphafið að efnahagskreppunni sem dundi yfir fyrir ekki svo löngu átti rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna. Hér eru teikn á lofti sem eru vissulega áhyggjuefni. Síðan höfum við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, það er mikil óvissa varðandi t.d. vöruútflutning okkar til Bretlands o.s.frv. Hvernig þessir þættir þróast getur haft neikvæð áhrif á útflutningstekjur okkar.

Síðan er talað um að enn ríki óvissa um þróun í ferðaþjónustu og að eftirspurn eftir ferðalögum til Íslands gæti einnig minnkað. Þetta er að sjálfsögðu áhyggjuefni, ekki síst vegna þess að nú kemur það fram í frumvarpinu að það á að hækka álögur á ferðaþjónustuna um 2,5 milljarða kr. Það á sem sagt að setja á komugjöld. Þær upplýsingar sem ég hef eru þær að ekki hafi verið haft neitt samráð við ferðaþjónustuna hvað þetta varðar. Það var svokallaður samráðshópur að störfum en hann lognaðist út af um síðustu áramót. Hér er ekkert samráð. Við vitum ekki með hvaða hætti útfærslan verður en þetta er töluverð upphæð, 2,5 milljarðar, sem leggst á þessa mikilvægu atvinnugrein og væntanlega með einhvers konar brottfarargjöldum, að mér skilst, og hefur þá áhrif á flugið. Þar ríkir mikil samkeppni. Kemur þetta til með að hafa áhrif á innanlandsflugið? Við höfum engar upplýsingar um það. Það er nauðsynlegt að fá þær upplýsingar.

Áfram er talað um óvissu varðandi íbúðafjárfestingar og þar er rétt að minnast þess að á lofti eru teikn um minni umsvif í byggingariðnaði og Samtök iðnaðarins hafa spáð samdrætti og fækkun starfa í byggingariðnaði á komandi vetri. Það eru u.þ.b. 14.500 manns sem starfa í byggingariðnaðinum á Íslandi og búist er við fækkun starfa. Það eru u.þ.b. 14% færri íbúðir í smíðum á höfuðborgarsvæðinu en hafa verið og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er talan mun hærri eða 37,5%. Þetta er áhyggjuefni vegna þess að byggingariðnaðurinn er meðal stærstu atvinnugreina. Það eru því teikn á lofti sem eru áhyggjuefni, herra forseti, og geta haft áhrif til þess að hér þurfi að endurskoða allar forsendur.

Ég sé að tíminn líður hratt og ég vildi koma inn á eitt atriði. Ég minntist áðan sérstaklega á samnýtingu skattþrepa og fór aðeins yfir að það ríkir misræmi milli þess sem segir í fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætlun og síðan þessarar yfirlýsingar sem kemur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þetta kom eitthvað óþægilega við hæstv. fjármálaráðherra og hann sagði að málið væri ekki hér til umræðu, við værum að ræða fjárlagafrumvarpið en ekki tekjuhliðina. En auðvitað kemur þetta málinu við vegna þess að þetta er jú í fjárlögum og í fjármálaáætlun. En ég fagna því þá að þetta sé niðurstaðan, tilkynningin sem kemur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er það sem gildir, sem er náttúrlega mjög óvenjulegt í ljósi þess að við höfum fjármálaáætlun sem við förum eftir. En ég fagna því bara ef þetta er niðurstaðan, að það eigi ekkert að breyta þessu. Þá hefur málflutningur okkar Miðflokksmanna kannski haft einhver áhrif í þessum efnum þannig að við fögnum því.

Ég vil síðan aðeins koma inn á nauðsyn þess að fá útlistun á því hvaða áhrif það hefur að hækka skattlagningu á millitekjufólk um 1 prósentustig. Hvaða fjárhæðir er verið að tala um? Það er nauðsynlegt að fá það fram. Og hvaða hópur er það sem þarf að mæta skattalækkuninni á lægstu tekjur? Ég vil taka það fram að Miðflokkurinn fagnar öllum skattalækkunum. En það er alveg ljóst að þetta kemur til með að hafa áhrif á millistéttina í landinu og það er nú einu sinni þannig að hún þarf oft að blæða fyrir ýmislegt. Ég tel nauðsynlegt að fá það fram hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á þennan sérstaka hóp. Það vantar greiningu og útlistun á því.

Ég kom inn á kolefnisgjaldið í andsvari við hæstv. ráðherra áðan. Það kom fram í andsvari fjármálaráðherra áðan að tilgangurinn væri sá að fá landsmenn til að nota umhverfisvænni bíla. Hv. þm. Inga Sæland kom réttilega inn á það að það hafa ekki allir efni á því að kaupa sér rafmagnsbifreið og þær eru tiltölulega dýrar. En það er búið að hækka þetta gjald verulega frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Þetta kemur til með að hækka verð á bensíni og dísilolíu, eins og ég nefndi áðan. Það er búið að sýna fram á að það er ekki hægt að segja hver árangurinn verður. Hæstv. fjármálaráðherra segir að árangurinn sé sá að það sé verið að innleiða mun fleiri rafmagnsbíla. En þá spyr maður sig: Er ekki hægt að fara líka aðrar leiðir, t.d. að reyna að stuðla að því að þeir sem eru á gömlum bílum taki þá úr umferð? Í flestum tilfellum er það fólk sem hefur ekki efni á að kaupa rafmagnsbíla. Ég vek athygli á því að nú þurfa bílaleigurnar ekki að greiða virðisaukaskatt af rafmagnsbílum sem leigðir eru út. Mér finnst þetta svolítið athyglisvert. Hvað kemur þetta til með að kosta ríkissjóð? Hvers vegna á að leggja áherslu á þetta? Það eru yfirleitt ferðamenn sem koma til með að njóta þessarar ívilnunar. Hvað með almenning, okkur Íslendinga sem notum vegina? Er ekki eðlilegt að reyna að styrkja þá sem eru á gömlum bílum? Þarna er verið að ívilna ákveðnum fyrirtækjum umfram önnur.

Ég sé að tíminn er útrunninn en ég hefði gjarnan viljað koma inn á skatteftirlit. Herra forseti, ég verð þá að koma inn í þessa umræðu síðar. Það er nauðsynlegt að ræða það frekar í tengslum við þetta frumvarp.