150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir gott innlegg í þessa umræðu. Ég vil nefna í upphafi að það er hárrétt að við erum mjög háð því að efnahagsframvindan í viðskiptalöndum okkar verði jákvæð. Það er ákveðin óvissa uppi um þessar mundir, eins og segir í fjárlagafrumvarpinu og vitnað var til, og kannski óvenjumikil óvissa með vísan í nokkra lykilþætti. Í því sambandi er mjög mikilvægt að við Íslendingar höfum sjálfir forræði yfir fríverslunarmálum okkar, svo að dæmi sé tekið, samskiptum við önnur lönd. Við erum með fríverslunarsamning við Kína. Að því leytinu til erum við í skjóli frá átökum milli Kínverja og Bandaríkjamanna. Það eru smitáhrifin af þeim deilum, sem geta borist víða, sem eru áhyggjuefnið. Það er sömuleiðis gott að við erum sjálf á eigin forsendum að ræða við Breta vegna væntanlegrar útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu, sem verður annaðhvort nú á næstu vikum eða innan skamms. Þetta eru allt mikilvægir þættir og það er mikilvægt að við höfum í huga að ekki er sjálfgefið að útlitið sé gott. Það eru bara svo og svo margir þættir sem við getum sjálf ráðið við og aðrir þættir eru óviðráðanlegir fyrir okkur. Við tökum bara afleiðingum þeirra.

Varðandi millitekjurnar nefndi hv. þingmaður að miðþrepið muni hækka. Það er rétt, en það breytir því ekki að enginn sem greiðir skatta í miðþrepinu er á nokkrum tímapunkti með meiri skattbyrði eftir tekjuskattsbreytinguna en fyrir hana. Það er vegna þess hversu mjög mikil lækkun felst í lægsta þrepinu. Það eru sem sagt allir að fá skattalækkun upp í gegnum allt miðþrepið.

Ég vil síðan segja að hv. þingmaður kemur með áhugaverða þætti inn í umræðuna um orkuskiptin og ég er bara sammála því að við þurfum að ræða þá áfram og finna réttu leiðirnar, hvatana og grænu skattana, (Forseti hringir.) í hvaða blöndu þetta virki best. En það byrjar á því að við séum sammála um að það sé æskilegt að orkuskiptin eigi sér stað.