150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvæg umræða sem hv. þingmaður kemur inn á sem varðar landsbyggðirnar, að við gáum eftir því að aðgerðir stjórnvalda komi ekki verr niður á hinum dreifðari byggðum. Þar hefur umræðan m.a. hverfst um það hvort sú saga sé rétt — eða ekki — að almennt ferðist fólk sem býr á landsbyggðinni meira á ökutækjum sínum en fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum séð aðeins misvísandi upplýsingar um það. Síðustu upplýsingar sem ég sá um þetta voru á hinn veginn, þ.e. að fólk á höfuðborgarsvæðinu ferðist almennt meira á ökutækjum sínum. En sú umræða bíður kannski betri tíma.

Mig langar bara að vekja athygli á efnahagslegu mikilvægi orkuskiptanna. Við ræðum almennt um þetta í tengslum við loftslagsmál og umhverfismál en ég vil biðja menn að opna augun fyrir því hversu stórkostlegt tækifæri liggur í því efnahagslega fyrir okkur Íslendinga að orkuskiptin eigi sér stað með því að við hættum að kaupa orku frá útlendingum til að flytja inn og notum okkar eigin orku til að knýja hér samskipti og samgöngur.