150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Vissulega var réttilega mælt hjá hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði að nú kæmi það sér vel að skuldastaða ríkissjóðs hefði batnað mikið og búið hefði verið í haginn. Við drögum ekki úr mikilvægi þess og kemur sér vel þegar við göngum inn í óvissutíma í efnahagsmálum.

Varðandi stefnuna, sem vissulega var endurskoðuð í ljósi alls þessa, er aldrei að vita hver þróunin verður, hvort endurskoða þurfi hana aftur. Það er ómögulegt að segja til um það en teikn eru á lofti, eins og kemur fram í þessum ágæta kafla um efnahagshorfur, um að hlutirnir gætu versnað enn frekar. Og maður getur lesið það út úr þessu að það sé frekar líklegt að svo verði. Þannig að ég held að það verði að skoða þetta í tengslum við fjárlagagerðina, hvort það óvissusvigrúm sem var lagt upp með (Forseti hringir.) sé í raun og veru nægilegt. Eins og staðan er núna bendir margt til þess, því miður, sérstaklega hvað varðar alþjóðaviðskipti, að staðan muni versna.