150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á margt í sinni ræðu hér á undan, enda af nógu að taka þegar að því kemur að ræða um fjárlög og ýmislegt af því hefur verið rætt hér í andsvörum. Mig langar hins vegar að halda áfram með þann þráð sem snýr að aðgerðum til þess að takast á við loftslagsbreytingar. Hv. þingmaður talaði sérstaklega um kolefnisgjald og að hann telji að það muni leggjast á suma frekar en aðra, sem það vitanlega gerir. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum í vetur, í samræðum um fjárlögin, eftir að ræða öll þau mál sem snerta á loftslagsmálunum mun meira en við höfum gert hingað til, bæði í tengslum við þær aðgerðir sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu með grænum sköttum en einnig í tengslum við öll önnur mál sem við ræðum hér og að þessi mál eigi hreinlega eftir að verða þyngri og þyngri í umræðunni á næstu misserum.

Ég hef grun um að ég og hv. þingmaður séum ekki alltaf alveg sammála um þær leiðir sem eigi að fara en ég heyrði hins vegar líka að hv. þingmaður hefur áhyggjur af loftslagsmálunum og setti þetta einmitt í tengsl við þær breytingar sem geta orðið á lífríki sjávar. Mig langar þess vegna til að spyrja hv. þingmann, ég veit að hann hefur bara tvær mínútur til þess að svara: Hvernig myndi hann, ef hann væri í aðstöðu til þess, forgangsraða í aðgerðum sem ríkisstjórnin getur beitt, m.a. með hagrænum hvötum, til að bregðast við loftslagsvánni?