150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta er mjög athyglisverð spurning og svolítið viðamikil. Ég held að kjarni málsins í þessu sé sá, hv. þingmaður, að við getum sýnt fram á árangur skattheimtunnar. Það finnst mér vera lykilatriði í þessu. Ég er alveg sannfærður um að íbúar sýna því meiri skilning að greiða umhverfisskatta þegar sýnt er fram á að þeir beri árangur og auk þess verður líka að gæta jafnræðis í þessum efnum.

Ég held að heildargjöld á eldsneyti og bifreiðar séu 50 milljarðar. Þetta eru verulega háar upphæðir og bifreiðaeigendur eru skattlagðir verulega hér á landi. Það er bara staðreynd. Kolefnisgjaldið kemur til með að hafa hækkandi áhrif á bensín og dísilolíu en á sama tíma sjáum við skemmtiferðaskip koma í Reykjavíkurhöfn og menga gríðarlega. Ég held að skattborgararnir sjái það og hugsi: Bíddu við, ég er að greiða þessi gjöld til að leggja mitt fram í baráttunni við loftslagsmálin en á sama tíma er hér skemmtiferðaskip sem mengar á tiltölulega skömmum tíma á við 40.000 bifreiðar eða þar um bil, ég þekki ekki nákvæmlega þessar tölur. Við verðum að gera þetta með þeim hætti að við getum sýnt fram á árangur. Það finnst mér vera lykilatriði í þessu.

Öllum ber saman um að loftslagsbreytingar og hækkun hitastigs á jörðinni eru alvarlegt mál. Þetta hefur áhrif á allt okkar líf. Ég held að stutta svarið sé að í skattheimtunni almennt verði að vera hægt að sýna fram á að hún beri árangur.