150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hv. þingmaður nefndi skemmtiferðaskipin og vil ég taka undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði að við ættum að reyna að nýta okkar innlendu orkugjafa og stuðla að því að þau tengist við rafmagn þegar þau koma í höfn, svo að þau þurfi ekki að keyra dísilvélar sem menga. Við getum lagt okkur fram í þeim efnum. Alveg eins og á að fara að styrkja heimahleðslustöðvar o.s.frv., sem er bara jákvætt mál. Það eru ákveðnir hlutir sem við getum gert til þess að koma í veg fyrir að skipin mengi jafn mikið og þau vissulega gera.

Kjarni málsins er sá að þetta sýnir að það eru þversagnir í þessum málum sem við verðum að vinna bug á þannig að almenningur taki þátt í þessu stóra verkefni, sem felst jú (Forseti hringir.) í ákveðinni skattlagningu, í fullri sátt og viti að verið er að berjast gegn ákveðinni vá. (Forseti hringir.) Hún verður þá að bera árangur, það skiptir mestu máli og að við fáum ráðgjöf frá helstu sérfræðingum í þeim efnum.