150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni höfum ýmislegt við fjárlagafrumvarpið 2020 að athuga. Reyndar lögðum við fram breytingartillögur í vor við fjármálaáætlun sem fjárlagafrumvarpið byggir á. Í þeim voru tvö meginþemu, annars vegar að verja velferðina í niðursveiflu og hins vegar að fjárfesta í framtíðinni, menntun, nýsköpun, rannsóknum og metnaðarfullum áætlunum í loftslagsmálum. Þær skynsamlegu tillögur voru allar felldar og við sitjum uppi með óraunhæft fjárlagafrumvarp sem virðist vera byggt á óskhyggju um að efnahagurinn verði betri á næsta ári en allar líkur standa til.

Eins og áður hefur komið fram í umræðunni þá er það ekki bara óvissa um innlendar stærðir, um ferðaþjónustuna og aðrar atvinnugreinar, og atvinnutækifæri í niðursveiflu heldur eru einnig blikur á lofti í viðskiptalífi stærri þjóða. Um þetta er ágætlega rætt í fjárlagafrumvarpinu eins og fram hefur komið. Þar er nefnt að óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum sé meiri um þessar mundir en oft áður og svigrúm stjórnvalda stærstu hagkerfa heims til að bregðast við áföllum minna. Af þeim ástæðum og vegna óvissu í einstökum atvinnugreinum og á mörkuðum innan lands séu meiri líkur á því að efnahagshorfur ársins 2020 breytist til verri vegar en að þær batni að ráði. Nefnt er sem dæmi viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína, sem við urðum áþreifanlega vör við á dögunum þegar varaforseti Bandaríkjanna sótti okkur heim. Það viðskiptastríð eykur líkur á samdrætti í fjárfestingu og á vinnumarkaði í helstu viðskiptalöndum okkar. Við það bætist óvissa um hvernig útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verður háttað. Ef útganga verður án samkomulags mun það leiða til efnahagsvanda í Bretlandi sem hefur aftur neikvæð áhrif á önnur lönd, m.a. Ísland.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki útlistað hvernig tekið yrði á versnandi stöðu og engin skref sýnd í frumvarpinu sem taka ætti til að undirbúa harkalegri niðursveiflu. Eina sem við vitum um viðbrögð við verri hagspá er það sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði, aðspurður af fréttamanni RÚV eftir kynningu á frumvarpinu 6. september sl., að afleiðingarnar kæmu fram bæði á gjalda- og tekjuhliðinni og jafnvel í verri afkomu. Það er ekki mikið gagnsæi í því.

Hvað merkir þetta, herra forseti? Frekari niðurskurður í velferðarkerfinu? Ekkert er gefið upp um það en því er hvorki játað né neitað. Það er með ólíkindum að tiltaka í greinargerð fjárlagafrumvarpsins alla óvissuþætti og tilgreina að miklar líkur séu á að staðan verði verri en frumvarpið gerir ráð fyrir en gera engar ráðstafanir til að verjast og tryggja að þeir sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda í gegnum heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið verði ekki látnir bera þessa niðursveiflu. Engar kröfur eru gerðar til þeirra sem fengu að njóta uppsveiflunnar, að þeir leggi sitt af mörkum í niðursveiflunni. Þeir efnamestu eru varðir. Engar breytingar eru boðaðar á tekjuskattskerfinu til að taka á ofurlaunum. Engin hugmynd um stóreignaskatt, engin breyting sem gefur aukinn arð af auðlindum okkar. Það eru boðaðar breytingar á fjármagnstekjuskatti en ekki til hækkunar heldur til lækkunar. Hugmynd ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að verja fjármagnseigendur fyrir verðbólgu. Slíkar trakteringar frá ríkisstjórninni fær almenningur ekki.

Sú staðreynd er þekkt að um 5% landsmanna eiga næstum jafn mikið og hin 95% samanlagt og eignir þeirra hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. Ísland er langneðst allra Norðurlandanna þegar kemur að aðgerðum til að bregðast við ójöfnuði. Samfylkingin gagnrýnir þá stefnu ríkisstjórnarinnar harðlega að gera aðhaldskröfu á velferðarkerfið í niðursveiflunni og halda lífeyrisþegum langt undir lágmarkslaunum en standa vörð um ríkasta fólkið í landinu. Stjórnarflokkarnir lofuðu bættum kjörum lífeyrisþega fyrir kosningar en lífeyrisgreiðslur eru nú innan við 250.000 kr. á mánuði og allir hljóta að vera sammála um að það eru lök kjör sem þarf að bæta. Einungis þeir sem búa einir ná 300.000 kr. markinu með heimilisuppbót. Og ég vil enn og aftur minna á að um 70% lífeyrisþega sem búa við lökust kjörin eru konur sem hafa unnið hlutastörf meðfram heimilisstörfum á árum áður eða verið heimavinnandi af einhverjum ástæðum. Meðal þeirra sem eru allra verst staddar eru konur af erlendum uppruna. Sá hópur er í miklum vanda, hefur takmörkuð efni og úrræði sér til framfærslu.

Með fjárlagafrumvarpinu er lagt til að lífeyrisgreiðslur hækki aðeins um 3,5% um áramótin á meðan lægstu laun hækka meira, eða um 5,7%, þremur mánuðum seinna eða 1. apríl nk., og lægstu launataxtarnir hækkuðu líka 1. apríl í ár. Bilið á milli þeirra fátæku og ríku breikkar og ríkisstjórnin virðist hæstánægð með þá þróun, ef ég skildi hæstv. fjármálaráðherra rétt hér í umræðunni fyrr í dag.

Herra forseti. Með lögum um opinber fjármál er okkur skylt, samkvæmt 18. gr., að meta fjármálaáætlanir og fjárlög út frá kynjasjónarmiði. Hafa á að leiðarljósi að jafnrétti fylgi efnahagslegur ávinningur en misrétti sé dýrkeypt. Ég leyfi mér að efast um að markmiðum kynjaðrar fjárlagagerðar hafi verið beitt við samningu fjárlagafrumvarpsins 2020. Nægir þar að nefna að aðhaldskrafa er gerð á ýmsar opinberar stofnanir þar sem stórar kvennastéttir vinna en hins vegar er innspýting í framkvæmdir þar sem einkum karlar starfa. Álag eykst á stóru kvennastéttirnar og störfum er þar fækkað en stjórnvöld mæta niðursveiflunni með fleiri atvinnutækifærum fyrir karla.

Við í Samfylkingunni fögnum lækkun tryggingagjalds en köllum jafnframt eftir auknum stuðningi við minni fyrirtæki í nýsköpun og rannsóknum. Stjórnvöld verða að gyrða sig í brók þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Það nægir ekki að hæstv. heilbrigðisráðherra sé öll af vilja gerð, fjárhæðir þurfa að fylgja og taka verður myndarlega á rekstrarvanda innan heilbrigðiskerfisins og á mönnunarvanda. Það er fínt að byggja nýjan spítala en það er fráleitt að taka milljarðana sem settir eru í nýbygginguna og leggja þá við rekstrarfjárhæðir, launa- og verðlagsuppbætur og stæra sig svo af því að aldrei hafi meira verið lagt til heilbrigðiskerfisins.

Heilbrigðisstofnanir úti um landið eiga í rekstrarvanda, mismiklum þó eftir aðstæðum á hverjum stað. Landspítalinn, sjúkrahúsið okkar allra, á við mikinn rekstrarvanda að stríða. Spítalinn ber halla frá fyrra ári inn á árið í ár og glímir einnig við vanda vegna of lágra framlaga í fjárlögum ársins í ár. Fyrirsjáanlegt er að hallinn í ár verði tæpir 4 milljarðar kr. Það dylst engum sem hefur þurft að leggjast inn á Landspítalann eða aðstandendum þeirra að álagið á starfsfólkið er gífurlegt. Það er slæmt fyrir starfsfólkið sjálft en einnig fyrir sjúklinga og það er sorglegt í þeirri stöðu að skoða þær aðhaldsaðgerðir sem Landspítalinn stendur frammi fyrir í ár. Hér eru nokkur dæmi: Aðhald í nýráðningum, sérstök aðhaldskrafa til stoðsviða og deilda, aðhald í lyfjakostnaði, draga á úr rannsóknum og myndgreiningu, aðhald í vöru-, tækja- og hugbúnaðarkaupum, fella á niður vaktaálagsauka. Eru hv. stjórnarþingmenn virkilega ánægðir með þá mynd sem hér er dregin upp eða ætla þeir að gera kröfu um að staðan verði bætt? Ég vona að það verði niðurstaðan eftir vinnu fjárlaganefndar við frumvarpið og að þau geri sér grein fyrir því að það er ekki mikilvægara fyrir samfélagið að verja auðmenn fyrir skattahækkunum en að huga að öldruðum og sjúkum.

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar uppfyllir ekki loforð sem gefin voru öryrkjum, námsmönnum eða fjölskyldufólki og aðhaldskrafa er gerð á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla og hvergi glittir í margboðaða stórsókn í menntamálum enda eru fjárveitingar til framhaldsskóla og háskóla lækkaðar. Aukningin til aldraðra er einungis vegna fjölgunar í þeirra hópi. Framlög til endurhæfingarþjónustu lækka. Það gera framlög til réttindagæslu fatlaðra einnig og hækkun til SÁÁ frá því í ár er felld niður þó að augljóslega sé þörf fyrir þá fjármuni í glímunni við fíknivanda. Fjármunir til þróunarsamvinnu eru lækkaðir, m.a. vegna flutnings fjármuna frá fátækustu ríkjum heims til hernaðaruppbyggingar á Keflavíkurflugvelli. Ekki er mikil reisn yfir þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Framlög Íslendinga til þróunarmála eru langt frá viðmiði Sameinuðu þjóðanna fyrir framlög ríkra þjóða til hinna fátæku en viðmið Sameinuðu þjóðanna er um 0,7% af þjóðartekjum. Hvernig í ósköpunum gat ríkisstjórnin komist að þeirri niðurstöðu að það væri góð hugmynd að lækka framlög til almennrar löggæslu þegar bæði íbúum hefur fjölgað og mikill skortur hefur verið á löggæslu vegna fjölgunar ferðamanna? Og þau tala um að auka eftirlit og styrkja eftirlitsstofnanir en gera síðan aðhaldskröfur í fjárlagafrumvarpinu til þeirra sömu stofnana.

Nú á að selja bankana, forseti. Við skulum ekki gleyma því að það tók einkarekna banka aðeins fjögur ár að keyra íslenskt samfélag í þrot. Við verðum að koma í veg fyrir að skattgreiðendur, ríkissjóður og sparifjáreigendur fjármagni áhættusömustu bankaviðskiptin. Bankahrunið kenndi þjóðinni að breyta þyrfti bankakerfinu þannig að það þjóni hag almennings en ekki bara þeim sem vilja fá aðgang að sparifé almennings. Hugum að sölu fjárfestingarhluta kerfisins eftir breytinguna en ekki fyrr. Hver treystir Sjálfstæðisflokknum til að einkavæða bankana aftur? Gera allir stjórnarliðar það? Er það virkilega svo?