150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skil ég hæstv. ráðherra þá svo að verði hagspáin sem von er á í október verri en sú sem fjárlagafrumvarpið byggir á þá verði ríkissjóður keyrður í mínus, í hallarekstur, og reksturinn fjármagnaður með lánum og skuldasöfnun hafin að nýju?

Það sem ég hef gagnrýnt og gagnrýni við þetta fjárlagafrumvarp er að gildin sem eru undir, samkvæmt lögum um opinber fjármál, virðast ekki vera virt; gagnsæi, varfærni og sjálfbærni. Það þarf að sýna okkur betur hvernig á að takast á við vanda á óvissutímum. Nú segir hæstv. ráðherra, ef ég skil hann rétt, að ef við lendum í vanda þá ætlum við ekki að skera niður í velferðarkerfinu heldur ætlum við að setja ríkissjóð í mínus. Ég hefði kosið að áður en við færum að safna skuldum að nýju hefðum við nýtt þá tekjuöflunarmöguleika sem við eigum og augljósir eru.

Herra forseti. Jafnvel þó að við miðum við hagspá Hagstofunnar og það sé fullkomlega eðlilegt að halda sig við eina hagspá og út í hött að rugla þeim öllum saman megum við samt vera varkárari og okkur er hreinlega gert að gera það samkvæmt lögum um opinber fjármál. Okkur er gert að vera varfærin og okkur er gert að stuðla að sjálfbærni í ríkisrekstrinum.