150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir hennar ágæta innlegg í þessa umræðu. Ég ætlaði að koma inn á umræðuna um óvissu en hæstv. ráðherra fór í andsvar við hv. þingmann um það. Ég get tekið undir ýmislegt en ég ætla að gera athugasemdir við tvennt. Hv. þingmaður kom inn á að hugmyndum Samfylkingarinnar hefði verið hafnað í tengslum við ríkisfjármálaáætlun og ef ég tók rétt eftir nefndi hún hugmyndir um að verja velferð og menntun og nýsköpun og að þeirra áherslna sjái ekki stað hér. Ég hafna því alfarið. Ég held að menntun og menning hafi sjaldan eða aldrei verið jafn sterkt á dagskrá og við sjáum í þessu frumvarpi og þeim frumvörpum sem við höfum samþykkt í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ég nefni aðgerðir til að hlúa að kennarastarfinu og hvatningu til kennaranáms. Ég nefni stuðning við bókaútgáfu. Ég nefni áform um að auka jöfnuð í lánakerfi íslenskra námsmanna. Ég nefni áform um að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Ég nefni framlög til framhaldsskóla og háskóla, framlög til starfsnáms, máltækniverkefnið til að efla íslensku sem opinbert mál, aðgerðaáætlun sem kemur í kjölfarið og þingsályktun sem við samþykktum hér og fleira gæti ég nefnt.

Ef við horfum eingöngu á útgjaldaaukninguna hlutfallslega höfum við blessunarlega sett aukna fjármuni í að styðja við nýsköpun og rannsóknir. Og ég tek undir með hv. þingmanni að það er afar mikilvægt, þar erum við algjörlega sammála. Ég hafna því alfarið að þetta sé ekki á dagskrá í þessu frumvarpi eða í undangengnum fjárlögum sem við höfum samþykkt.