150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið talað um menntun og menningu en þegar við förum að rýna í tölurnar standast þær ekki skoðun. Mér finnst athyglisvert að framlag til framhaldsskóla skuli bókstaflega lækka á milli ára. Það gefur okkur alla vega ekki von um stórkostlega menntasókn. Ég er algjörlega sammála því að við þurfum að leggja meiri áherslu á starfsmenntun. Við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á menntun þegar við horfum á breytingar sem fjórða iðnbyltingin mun hafa í för með sér. Þar verður menntakerfið að standa sig og vera burðugt til að taka við fólki og þjálfa það upp í að takast á við þær breytingar sem verða hraðar og munu gerast mjög hratt á næstu árum. Því miður sé ég ekki að menntakerfinu sé gert kleift að taka á sig það stóra hlutverk sem það þarf að gera, ekki með þeim fjárveitingum sem til þess eru settar í fjárlagafrumvarpinu. Það þarf að gera enn betur.

Ef við ætlum að takast almennilega á við breytingarnar sem fram undan eru þannig að ekki verði til hér enn stéttskiptara samfélag, þannig að fólk sem missir sín störf fái tækifæri til að mennta sig og gera sig færari á vinnumarkaði, verðum við að setja meira í menntun, bæði í grunnmenntun en einnig í símenntun og starfsmenntun með vinnu.