150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við eigum auðvitað eftir að rýna fjárlagafrumvarpið í fjárlaganefnd en ég get ekki séð á þeim tölum sem ég hef skoðað að stytting framhaldsskólastigsins og sá sparnaður sem sú kerfisbreyting gaf skili sér til kerfisins eins og lofað var. Ég sé það ekki.

Ég sé ekki heldur á þeim tölum sem gefnar eru upp fyrir háskólastigið að við séum að ná OECD-meðaltalinu eins og lofað var. Við erum langt frá Norðurlandameðaltalinu. Ég vil minna á að framlög til menningar-, lista- og æskulýðsmála lækka og þau eiga að lækka næstu fimm árin samkvæmt fjármálaáætlun sem hv. stjórnarliðar hafa samþykkt í þessum sal.

Ég get ekki séð þessa miklu stórsókn, hvorki í menntamálum né menningarmálum eða æskulýðsmálum.