150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi að þessi ríkisstjórn hefði hækkað fjármagnstekjuskattinn og hann hefði skilað auknum tekjum. Hann var hækkaður um 2 prósentustig, úr 20% í 22%, en gert er ráð fyrir að tekjurnar lækki úr 32 milljörðum í 30. Auk þess er boðað að gera eigi breytingar á skattstofninum þannig að fjármagnseigendur séu varðir fyrir verðbólgu. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá fær almenningur ekki slíkar trakteringar en þá sem eru umfram frítekjumarkið í fjármagnstekjunum á að verja sérstaklega. Það finnst mér ekki góð pólitík.

Þróunarsamvinnan. Já, ég bind vonir við að hv. þingmaður standi vaktina í fjárlaganefnd en hins vegar er markmið ríkisstjórnarinnar langt undir viðmiði Sameinuðu þjóðanna. 0,7% af þjóðartekjum er viðmið Sameinuðu þjóðanna. Við erum langt þar undir.

Hv. þingmaður spyr um aðgerðir til loftslagsmála. Ég er sammála því að beita þarf hvötum til að flýta fyrir breytingunni og ég er sammála því að stjórnvöld þurfi að leiða vagninn. Almenningur hefur sýnt að hann er viljugur til að taka þátt. En það þarf að gera miklu betur og ég vil nefna tvennt sem ég sakna að sjá ekki í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er t.d. styrkur til að rafvæða hafnir. Fyrr í umræðunni í dag var talað um mengun frá skemmtiferðaskipum o.s.frv. Til að rafvæða hafnir þarf aukið opinbert fjármagn. Og ég sakna þess að sjá ekki styrk við íslenska garðyrkju og það ætti auðvitað að vera partur af loftslagsstefnu, en líka partur af matvælastefnu. (Forseti hringir.) Ég gæti nefnt margt fleira en þetta tvennt æpir á mann.