150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að til framtíðar þurfum við að gera betur í þróunarsamvinnumálum og ég hef talað fyrir því hingað til og hætti ekkert að gera það þótt minn flokkur sé kominn í ríkisstjórn. Þess vegna fagna ég þeim árangri sem við þó náðum í því að hækka framlögin því það skiptir gríðarlega miklu máli. En við þurfum að fara lengra í þá átt.

Mér finnast áhugaverðar þær tillögur sem hv. þingmaður leggur hér fram varðandi það sem hægt er að gera í loftslagsmálum. En ég skil það sem svo að hún styðji líka þær aðgerðir sem eru lagðar til í fjárlagafrumvarpinu þó svo að hún vilji sjá fleira gert til framtíðar.

Að lokum langar mig aðeins að nefna, vegna þess að hv. þingmaður kom ekkert inn á það í sinni ræðu og mér fannst það svolítið áhugavert, þær skattbreytingar sem verið er að fara í (Forseti hringir.) í kjölfar lífskjarasamninganna og hvort hv. þingmaður telji ekki að verið sé að stíga mikilvægt skref til þess að jafna kjörin í landinu og (Forseti hringir.) auka ráðstöfunartekjur þeirra sem eru í lægsta tekjuþrepinu.