150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur unnið ötullega að því að koma til framkvæmda þjóðþrifaverkum, málum sem hafa liðið fyrir það að hér hefur ekki verið varið nægu fjármagni til að styrkja þær stoðir sem samfélag okkar byggir á, hina svokölluðu innviði, auk þess sem pólitískur óstöðugleiki hefur verið mikill á undanförnum árum með tíðum ríkisstjórnarskiptum. Við þetta bætast svo ný og umfangsmikil verkefni vegna þeirra breytinga sem blasir við að þurfi að ráðast í vegna loftslagsbreytinga.

Fjárlagafrumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir fyrr í morgun tekur mið af þessu öllu og kemur að auki í kjölfar þess að í vor var gengið frá langtímakjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði, svonefndum lífskjarasamningum, og taka fjárlögin mið af skuldbindingum ríkisins við frágang þeirra. Nú þegar hefur þessi ríkisstjórn komið fjöldanum öllum af verkefnum til framkvæmdar líkt og tvenn síðustu fjárlög hennar bera vitni um. Um leið kemur sér vel að ríkissjóður hefur verið rekinn með myndarlegum afgangi síðustu ár, nú þegar hægir á hagkerfinu. Ríkissjóður verður í jafnvægi á næsta ári þrátt fyrir áföll á þessu ári en við þekkjum öll þessi áföll, algjör aflabrestur í loðnu og vandræði í flugrekstri, bæði gjaldþrot og kyrrsetning Boeing Max vélanna og auðvitað hefur þetta áhrif inn í ríkisreksturinn. En hér er til að mynda enn þá jákvæður viðskiptajöfnuður við útlönd þrátt fyrir þá þætti sem ég nefndi áðan og sem samfélag eigum við meira en við skuldum. Ríkissjóður hefur aldrei tekið lán með lægri vöxtum og er vel í stakk búinn til að takast á við samdrátt í hagkerfinu. Mín skoðun er sú að hér sé verið að haga sér skynsamlega í ríkisfjármálunum miðað við það hvernig hagkerfið er statt akkúrat núna.

Mig langar að nefna það, vegna þess að í gær var í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra aðeins talað um krónutölugjöld, að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að þau hækki um 2,5% í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans þrátt fyrir að hækkun á vísitölu neysluverðs sé meiri, þ.e. 3,4%. Þetta hefur áhrif á alla og meira að segja á ríkissjóð því að hann fær aðeins minni peninga en aðrir græða á því.

Ég ætla að stikla á stóru þegar kemur að málefnunum í fjárlagafrumvarpinu, enda ekki með ótakmarkaðan ræðutíma. Ég vil byrja á nokkrum atriðum sem öll lúta að því að vinna gegn misskiptingu og auka jöfnuð. Mig langar að byrja á að ræða skattkerfisbreytingar á tekjuskatti einstaklinga sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu. Þær breytingar eru hluti af lífskjarasamningunum og miða að því að koma á fót nýju þriggja þrepa skattkerfi. Þannig verður til nýtt skattþrep sem dregur úr skattbyrði tekjulægsta hópsins og eykur þar með ráðstöfunartekjur hans. Nú er verið að fara í hluta af þessum breytingum og afgangurinn af breytingunni kemur til framkvæmda á árinu 2021. Það er verið að hraða þeim frá því sem áður var talað um, að þær kæmu til framkvæmda á þremur árum. Nú er verið að stytta þann tíma niður í tvö ár og ég tel það mjög jákvætt.

Líkt og hæstv. fjármálaráðherra nefndi í framsögu sinni hefur þessi breyting ekki neikvæð áhrif á neinn tekjuhóp en kemur sér hins vegar best fyrir tekjulægsta hópinn. Þessu til viðbótar er stuðningur við barnafjölskyldur aukinn með því að stíga fyrra skrefið af tveimur í því að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði. Það er hagsmunamál fyrir allar barnafjölskyldur og öll börn í landinu, en rannsóknir hafa sýnt að ein áhrifamesta leiðin til að draga úr líkum á fátækt barnafjölskyldna sé að brúa umönnunarbilið frá lokum fæðingarorlofs og upp í leikskóla, ásamt því að hækka barnabætur. Barnabætur hækkuðu 1. janúar á þessu ári og munu aftur hækka með þessum fjárlögum.

Svo finnst mér heldur ekki hægt að ræða fjárlagafrumvarpið og jöfnuð án þess að ræða um heilbrigðiskerfið okkar en uppbygging þess heldur áfram. Framlög til þjónustu við aldraða eru hækkuð. Haldið er áfram að efla heilsugæsluna og gera hana að fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu, nokkuð sem ég held að almenn sátt sé um í samfélaginu, þvert á allar pólitískar skoðanir. Geðheilbrigðismál fá forgang með því að byggja áfram upp geðheilbrigðisteymi um land allt. Áfram verður dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga og það er gríðarlega mikilvægt jöfnunartæki því að öll eigum við að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Auk þess er sett fé í að innleiða ný lyf og fjármagn sett í að bæta heilbrigðisþjónustu við fanga. Það er kannski ekki eitt af stóru atriðunum í þessu fjárlagafrumvarpi en engu að síður gríðarlega mikilvægt mál.

Svo eru framkvæmdir við byggingu Landspítala að komast á næsta stig. Auðvitað er það partur af uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu. Þó að ekki sé bara hægt að horfa til þess fjármagns sem fer í steinsteypu er það fjárfesting og uppbygging sem ekki verður komist hjá.

En mig langar til að nota síðustu mínúturnar mínar hér til að ræða loftslagsmálin sérstaklega, enda á framtíðin allt undir því að tekist sé á við þau. Þessi fjárlög sýna glöggt að okkur er alvara í að því að leggja okkar af mörkum þegar kemur að því að bregðast við loftslagsbreytingum. Þessi ríkisstjórn hefur metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum og fjárlögin sýna að verið er að hrinda henni í framkvæmd. Við ætlum að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að stuðla að orkuskiptum í samgöngum og gera landið kolefnishlutlaust árið 2040. Til að það náist þarf skýra forgangsröðun og stefnumótun frá ríki, sveitarfélögum og einkageiranum, atvinnulífinu, og það þarf að grípa til beinna aðgerða sem hafa þau áhrif að draga úr útblæstri og mengun.

Í fjárlagafrumvarpinu er að finna aukinn stuðning við orkuskipti en þar eru einnig áform um að leggja gjöld á losun úrgangs og mengun, svo sem flúoraðar gróðurhúsalofttegundir sem er nýyrði sem ég varð að læra í þessari viku. Flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eru til að mynda notaðir í kælikerfum. Jafnhliða þessu ætlum við að auka bindingu með því að græða upp rofið land og endurheimta votlendi. Það eru allir að velta fyrir sér loftslagsmálunum, hvað sé hægt að gera, og táningurinn á heimilinu hjá mér spurði mig einmitt að því um daginn hvort þessi ríkisstjórn gæti ekki farið að láta fólk borga fyrir það að menga, að hækka skatta á mengun og nota peningana sem þannig verða til til að endurheimta votlendi. Við erum að tala um 14 ára krakka í grunnskólum sem eru að ræða það hvað hægt sé að gera, hvernig hægt sé að nota skattkerfið til að vinna gegn loftslagsbreytingunum og leggja þar með okkar af mörkum til að uppfylla Parísarsáttmálanum og til að ná tökum á loftslagsmálunum. Mér finnst þetta vita á gott. Mér finnst frábært þegar unglingar eru í hópum sín á milli (Forseti hringir.) farnir að ræða um fjárlög og hvernig hægt sé að nota þau til að hafa áhrif til góðs á samfélagið okkar.

Ég er að taka sæti í fyrsta skipti í fjárlaganefnd og ég hlakka gríðarlega til þeirrar miklu vinnu sem þar á eftir að fara fram um fjárlögin.