150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni að því leyti að ég tel að það verði auðvitað að líta til kerfisins í heild þegar kemur að lífeyrisþegum líkt og öllum öðrum hópum í samfélaginu þegar við tölum um kerfisbreytingar, svo sem skattkerfisbreytingar. Örorkulífeyrisþegar eru partur af samfélaginu og allar almennar aðgerðir sem farið er í eiga að hafa áhrif á þennan hóp. Það á ekki alltaf bara að tala um sértækar aðgerðir fyrir hópinn.

Að því sögðu er ég þeirrar skoðunar að það næsta sem þurfi að gera, og ég veit að það er farin vinna í gang við það, er að vinna að því að bæta sérstaklega kjör þeirra sem búa við lökustu fjárhagsafkomuna. Það er breidd innan þessa hóps eins og hjá öðrum og ég tel að þar þurfi að ráðstafa fjármagninu sérstaklega til þeirra sem búa við lökustu kjörin vegna þess að kjör þeirra sem geta til að mynda sinnt einhverri atvinnu hafa batnað með breytingum á sérstöku framfærsluuppbótinni.

Hvað varðar barnabæturnar hafa þær verið að hækka til þeirra sem hafa lægstu ráðstöfunartekjurnar. Það er að mínu mati hárrétt forgangsröðun og gríðarlega gott. Svo getum við rætt það hvort við eigum að ganga lengra í þeim efnum. Það held ég að sé nokkuð sem þurfi að taka til nánari umræðu (Forseti hringir.) en forgangsröðunin sem sett er fram í þessu fjárlagafrumvarpi er hárrétt.