150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Svo að það sé alveg á hreinu þá fer ákvarðanataka fram fyrir opnum tjöldum og við tökum umræðuna hér í þingsal um þingmál. Þannig á það að vera og þannig verður það að vera. Það sem ég á hins vegar við er að ég get í samtölum við mína eigin flokksmenn komið með hugmyndir, vangaveltur, sjónarmið, rætt málin og fengið endurgjöf frá þeim. Það breytir ekki því að ákvarðanirnar eru teknar í þingsal með atkvæðagreiðslu að lokinni umræðu hér. Þessu tvennu má alls ekki rugla saman. Á sama hátt og ég hef aðgang að mínum samflokksmönnum til að eiga samtal hefur hv. þingmaður aðgang að sínum eigin samflokksmönnum til að eiga þar samtal. En það breytir svo engu um það hvernig við vinnum að því að taka hinar formlegu ákvarðanir.

Hvað varðar breytingu á lögum um opinber fjármál tel ég mikilvægt að missa ekki sjónar á því að lög um opinber fjármál og allt sem tengist fjárlögum og fjárveitingu snýr að því að þjóna samfélaginu og við þurfum að hafa þau þannig að það gagnist samfélaginu sem best. Við eigum ekki að sníða samfélagið að lögum um opinber fjármál. Ef þarna er eitthvert misræmi á milli (Forseti hringir.) þá tel ég að skoða þurfi lögin um opinber fjármál með tilliti til þess því að það er alltaf (Forseti hringir.) samfélagið sem er grunnurinn. Svo höfum við alls konar reglur og lög sem við notum til að hafa áhrif þar á.