150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég býst við að fjármálaráðherra mæti hingað hvað úr hverju. Mig langar að byrja á hrósinu og það væri kannski ágætt að hann heyrði a.m.k. það. Það sést að tekið hefur verið tillit til nokkurra ábendinga við vinnslu þessa fjárlagafrumvarps. Þar má helst nefna sundurliðun á útgjaldabrúnni svokölluðu þar sem reynt er að sundurliða betur upphæðir mismunandi atriða. Framsetningin er samt ekki alveg eins og best verður á kosið. Maður þarf að setja smávinnu í að pikka úr texta hvaða upphæð stemmir í hvaða hólf, hvað fer í útgjaldasvigrúm, hvað fer í bundin útgjöld o.s.frv. Maður þarf að leggja þetta sjálfur saman til að athuga hvort það stemmir. Þegar það stemmir ekki er ekki endilega augljóst hvaða vitleysu maður gerði, hvort það vanti eitthvað eða hvort maður setti í rangt hólf. Þetta er þó tvímælalaust betra en það var síðast.

1., 2. og 3. kafli í greinargerðinni eru mjög góðir. Það er almennt aðgengilegur, nákvæmur og greinargóður texti. Mér tókst hins vegar að klúðra dálitlu þegar ég fór yfir skattkerfisbreytingarnar og komst að niðurstöðu um að það væru skattahækkanir árið 2020. Ég get bara sjálfum mér um kennt af því að ég dró aðeins of snemma ályktanir út frá þeim tölum sem ég sá. Mér til varnar hefðu þær tölur mátt vera í fjárlagafrumvarpinu sjálfu en ekki bara í einhverjum glærukynningum til hliðar. Ég sá meira að segja aðra villu í þeim glærukynningum og það hjálpar sannarlega ekki. Það að hafa nákvæmar tölur um persónuafslátt á hverju ári sem skattbreytingarnar taka til í frumvarpinu sjálfu hefði verið hjálplegt og komið í veg fyrir misskilning sem ég sá að fleiri flöskuðu á, t.d. í grein í Morgunblaðinu. Ef ég get komið með eina almenna ábendingu um framsetningu í fjárlagafrumvarpi myndi ég vilja að samanburður á milli talna væri samræmdari, bæði þegar verið er að bera saman tölur fyrri ára og á hvaða verðlagi tölurnar eru settar fram og sérstaklega að sá samanburður sé víðar. Þegar verið er að sýna tölur til framtíðar verður einnig að sýna grunnsviðsmynd um hvernig allt myndi líta út ef engu væri breytt, t.d. verður með skattkerfisbreytingar að sýna hvernig persónuafsláttur, skattleysismörk og skattgreiðslur hefðu orðið árin 2020 og 2021 í óbreyttu kerfi og bera síðan saman við breytingartillögurnar þannig að maður sjái muninn á milli tekjuhópa og ýmislegt svoleiðis á milli ára.

Það sem ég vil aðallega tala um í þetta skipti er hversu langt við erum frá því að ná að uppfylla lög um opinber fjármál. Við mjökumst í þá átt. Mig langar að tala um hvernig við komumst þangað sem fyrst. Í því sambandi tel ég að stjórnvöld þurfi að gera eitt, fyrst af öllu að sýna okkur innleiðingaráætlun sem á að hjálpa okkur til að uppfylla lög um opinber fjármál. Það er nefnilega staðreynd að ekki hefur verið farið eftir lögum um opinber fjármál eins og er. Allir tímafrestir samkvæmt lögunum eru liðnir. Ég heyri iðulega afsökunina að önnur lönd hafi gefið sér tíu ár í innleiðingu og þess háttar. Mig langar ekki að heyra þá afsökun lengur. Við gáfum okkur ekki þessi tíu ár, það er bara þannig í lögunum. Ef fólk vill endilega hafa tíu ára innleiðingu ætti það að leggja fram innleiðingaráætlun sem við vissum þá að farið yrði eftir. Lögin eru í gildi og þeim á að fylgja. Maður hefur oft heyrt að engin lög hafi verið brotin en svo þegar það gerist þegja allir.

Hvernig komumst við þangað sem fyrst? Til að byrja með er innleiðingaráætlun. Í öðru lagi að hætta því sem við höfum alltaf gert og byrja að vinna samkvæmt lögunum, sem sagt innleiðingarferlinu ef það verður lagt fram. Miðað við það sem ég sé og heyri fer mjög mikill tími í fjárlagavinnunni í að gera ýmislegt sem þarf ekki að gera og væri ekki eins tímafrekt ef byrjað væri á réttu hlutunum sem eru líka tímafrekir. Þá á ég aðallega við stefnumótun þar sem sérstök áhersla er lögð á kostnaðar- og ábatagreiningu opinberra verkefna. Þegar það liggur fyrir er allt annað að mínu mati bara uppfyllingarefni. Það er tímafrekt og erfitt að gera þessar kostnaðar- og ábatagreiningar fyrir öll opinber verkefni en einmitt þess vegna verður það að vera fyrsta og aðalverkið. Ef við byrjum að gera eitthvað annað verður aldrei tími til að gera það sem er mikilvægast, kostnaðargreininguna sem leiðir svo af sér forgangsröðun. Þá get ég sagt: Sýndu mér forgangsröðunina með kostnaðargreiningu og ég skal sýna þér fjárlög byggð á þeim gögnum, bara með spegli. Gjörðu svo vel, þetta eru fjárlög.

Við vitum sem sagt hvað þarf að gera. Við vitum að það er erfitt. Ég veit um leið til þess að gera það auðveldara. Í nokkur ár höfum við Píratar og svo sem margir aðrir talað um hvað hagkerfið og uppsetningin á því er galin. Kerfið er ómannúðlegt og það er þurrt að nota orð eins og verga landsframleiðslu, hagsveifluleiðréttan frumjöfnuð og þess háttar. Svo er líka talað um köku sem alltaf þarf að stækka og stækka þrátt fyrir að fæstir fái að sjá kökuna og hvað þá að fá sneið af henni, í mesta lagi mola af skreytingunni.

Við Píratar höfum talað um borgaralaun, styttri vinnuviku og að hætta að vaxa endalaust. Ekkert getur vaxið út í hið óendanlega. Fyrr á árinu fengum við loks nafn á þessar pælingar okkar þegar Nýja-Sjáland gerði í fyrsta sinn fjárlög byggð á velsæld eins og OECD mælir hana. Það er svo sem hægt að gagnrýna nafnið en innihaldið skiptir mestu. Við í Pírötum höfðum notað lífskjaramarkmið OECD í þó nokkurn tíma í vinnslu þingmála. Þau eru hluti af velsældarramma OECD, á ensku „Well-Being Framework“. Nafnið skiptir svo sem ekki öllu máli en þetta er það sem hefur verið valið. Það er innihaldið sem skiptir máli. Samkvæmt þeim lífskjaramarkmiðum var augljóst að mikið ójafnvægi var á milli vinnu og tómstunda hvað Ísland varðaði miðað við hinar OECD-þjóðirnar. Þar var okkar slæma staða notuð til að leggja fram tillögu um verkefni til að bæta þá stöðu. Þannig stefnumótun gæti verið eitthvað sem við ættum að horfa á til framtíðar. Ég var nýbúinn að vera að vesenast í fjármálaáætlun og því hversu ómarkviss framsetning á stefnu stjórnvalda var í áætluninni þegar ég sá fréttir um velsældarfjárlagafrumvarp Nýja-Sjálands. Þá púslaðist allt saman. Það var nafnið á myndinni sem við vorum búin að tala um undanfarin ár, stóru myndinni sem vantaði í umræðuna. Þarna voru notaðir mælikvarðarnir, sem við notuðum t.d. í þingmáli okkar um styttingu vinnuviku, til að byggja upp stefnu stjórnvalda. Þessir mælikvarðar eru akkerið sem vantar í þessa stefnumótun, það sem vantar til viðbótar við grunngildi laga um opinber fjármál til að kjarna stefnumótun stjórnvalda í fjármálaáætlun.

Við fórum strax í að setja saman þingmál til að innleiða velsældarrammann í lög um opinber fjármál og afurð þess ætti að birtast í þingskjölum á allra næstu dögum. En þegar við byrjum að vinna að þessari breytingartillögu við lög um opinber fjármál urðum við vör við áhuga í fleiri flokkum og breyttum henni í þingsályktunartillögu til að gefa betra rými fyrir aðra sem hefðu áhuga á málinu.

Velsældarrammi OECD er frekar einfaldur. Á bak við liggja fjölmargar rannsóknir og gagnagreining. Í stuttu máli má tala um þetta sem úrræði fyrir framtíðarvelsæld. Þar er byggt á náttúruauði, mannauði, félagslegum auði og svo fjármagns- og efnahagslegum auði, sem er nokkurn veginn það sem við miðum bara við núna. Náttúruauður vísar til allra sviða náttúru sem þarf að stuðla að lífi og starfsemi manna. Þar undir fellur land, jarðvegur, plöntur, dýr, jarðefni og orkulindir samkvæmt útfærslu Nýja-Sjálands.

Mannauður felur í sér færni fólks, þekkingu og líkamlega og andlega heilsu sem gerir fólki kleift að taka að fullu þátt í vinnu, rannsóknum, tómstundum og taka almennt þátt í samfélaginu. Þetta er mælikvarðinn á það.

Félagsleg auðlegð lýsir reglum og gildum sem eru undirstaða samfélags og felur í sér þætti eins og traust og löggjöf. Í tilviki Nýja-Sjálands felur það í sér samband krúnunnar og Maoría, það yrði væntanlega eitthvað annað fyrir okkur. Svo er menningarleg sjálfsmynd og tengsl fólks og samfélaga.

Undir efnislegan auð falla hlutir eins og hús, vegir, byggingar, sjúkrahús, verksmiðjur, búnaður, fjárfestingar sem skapa framleiddar eignir þjóðarinnar sem gegna hlutverki við að halda við tekjum og efnahagslegum lífsgæðum.

Innan þessa er hvernig við mælum núverandi hagsæld og þar er fjallað um lífsgæði annars vegar og efnislegar aðstæður hins vegar. Lífsgæði fela í sér heilsufar, jafnvægi starfs og ævi, menntun og færni, félagsleg tengsl, ráðningu og stjórnun, umhverfisgæði, persónulegt öryggi og huglæga velsæld.

Efnahagslegar aðstæður eru t.d. tekjur, auður, störf, laun og húsnæði.

Þetta er það sem stefna stjórnvalda í áttina að velsæld ætti að grundvallast á. Þetta passar fullkomlega inn í lög um opinber fjármál til að stefna samkvæmt stefnumörkun geti verið markviss. — Þetta er allt of stuttur tími eins og ég hef áður kvartað undan og fagráðherrar fá enn minni tíma, finnst mér, þannig að það mætti aðeins endurskoða tímann.

Mig langaði að tala örstutt um kirkjujarðasamkomulagið sem er í dálítilli geðveiki. Þar finn ég þrjár mismunandi tölur um hvernig eigi að uppfylla kirkjujarðasamkomulagið. Það eru 783,5 milljónir á bls. 119, 856,9 milljónir á bls. 212 og svo eru 903 milljónir á bls. 140 í fylgiriti. Við erum í dálitlum vanda með þetta. Það á að koma einhver samningur sem við höfum ekki séð og við eigum að uppfylla hann á einhvern hátt til margra ára inn í framtíðina ef við samþykkjum það án þess að geta gert neinar athugasemdir. Þetta er samningur um óendanlegan pening fyrir endanlegar eignir þegar allt kemur til alls. Ég myndi vilja geta selt fjármálaráðherra húsið mitt fyrir óendanlegar afborganir (Forseti hringir.) til mín og afkomenda minna um ókomna ævi en það myndi enginn gera svoleiðis samning. Samt gerum við svoleiðis samning við kirkjuna og mér finnst það fáránlegt.