150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég tel mikilvægt að áætlunum ríkisins um útgjöld fylgi skýr áform og að þau séu vel ígrunduð, sérstaklega þegar um ný verkefni er að ræða. Eitt af verkefnunum sem við höfum beitt okkur fyrir er hið svonefnda endurmat útgjalda þar sem við förum markvisst yfir stóra útgjaldaliði hjá ríkinu og spyrjum hvort það sé hægt að gera hlutina betur, fá meira fyrir minna, endurraða og forgangsraða upp á nýtt.

Hv. þingmaður talar talsvert um þörfina fyrir nánari kostnaðar- og ábatagreiningu og mér finnst hann ganga býsna langt í því að segja að slík greining gæti jafnvel svarað öllum spurningum og þá myndu hlutirnir einhvern veginn leysa sig sjálfir í framhaldinu. Ég hef hins vegar séð þetta þannig að stjórnmálin snúist einmitt um að svara öllum spurningunum hvað sem líður kostnaðar- og ábatagreiningu vegna þess að sýn okkar á samfélagið er kannski ekki nákvæmlega sú sama eftir því hvar við höfum stillt okkur upp á ási stjórnmálanna. Þetta snýst að einhverju marki um það hvernig samfélag við sjáum fyrir okkur verða til þannig að sem flestir njóti lífshamingju. Ég held að kostnaðar- og ábatagreining muni t.d. lítið hjálpa til þess að svara því hversu miklu það skiptir að tryggja frelsi einstaklinga, svara spurningum um umfang ríkisins, hvort lágir skattar séu betri en háir skattar eða hversu langt eigi að ganga í því að tryggja tekju- eða eignajöfnuð með stjórnvaldsaðgerðum. Getum við með kostnaðar- og ábatagreiningu svarað spurningum eins og þeirri hvort það sé betri ráðstöfun að auka framlög í lífeyrisgreiðslur til öryrkja eða hvort við ættum kannski frekar að (Forseti hringir.) tryggja frekari fjármögnun á bak við lyfjakaup?

Það eru svona vangaveltur sem mér finnst hv. þingmaður dálítið skauta fram hjá þó að ég sé í grunninn sammála því að útgjaldaáformum eigi að fylgja góðar greiningar.