150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Getum við hvað sem líður kostnaðar- og ábatagreiningum í stjórnmálum bara horft fram hjá öllu því og tekið geðþóttaákvarðanir fram og til baka um hvað sem okkur finnst? Nei, til að byrja með segja lög um opinber fjármál okkur að gera þetta. Í öðru lagi getum við með kostnaðar- og ábatagreiningum grundvallað stjórnmálin og stjórnmálarifrildið sem slíkt um hægri og vinstri, forræðishyggju eða hvernig sem maður vill hafa það. Vissulega er hægt að gagnrýna aðferðafræði og ýmislegt svoleiðis, og það væri mjög áhugavert ef við gætum rætt það hérna líka, en þá kemur bara mun betur í ljós ef það er mikill munur á mismunandi áherslum hægri og vinstri eða markaðshyggju og rekstri á opinberum forsendum. Ef það er mikill munur á kostnaðar- og ábatagreiningum og miklu ódýrara að reka eitthvað á opinberum forsendum og ágóðinn er miklu meiri koma stjórnmálin málinu ekkert við. Það er það sem ég er að reyna að segja.

Ef það er sama og enginn munur á kostnaði og ábata af því að reka eitthvað á markaðslegum forsendum eða opinberum forsendum getum við tvímælalaust tekið stjórnmálin á málin. Þegar munurinn er hins vegar mjög mikill, ef það er miklu ódýrara að velja markaðskerfi og ágóðinn fyrir ríkissjóð og samfélagið væri t.d. meiri við að setja kvótann í markaðsfyrirkomulag í staðinn fyrir opinbert úthlutunarapparat eins og er núna, ætti valkosturinn að vera augljós.

Lög um opinber fjármál snúast um að allir valkostir séu metnir á þennan hátt. Síðan eigum við að forgangsraða og tvímælalaust verður tekin pólitísk ákvörðun um að velja annan kostinn umfram hinn. Þá standa stjórnmálin með þeirri ákvörðun, ekkert mál með það, en við grundvöllum þetta á þeim ábata sem við getum (Forseti hringir.) fengið fyrir land og þjóð.