150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, við byrjum einmitt á því að skoða hvernig landið liggur og hvernig þróunin er án breytinga. Það er grunnsviðsmynd okkar. Skattkerfisbreytingar t.d., hvernig myndi skattkerfið og innheimtan í því vera á næstu árum ef við myndum ekki breyta neinu? Svo eru lagðar til breytingar og tilgreint hvaða áhrif þær myndu hafa. Það eru þá kannski nokkrir kostir sem stjórnin hefur úr að velja þegar stefnan er valin. Hún getur þá alla vega útskýrt af hverju hún velur einn kost umfram annan.

Hvað varðar kostnaðarmatið og ábatagreiningu vísa ég beint í álit fjármálaráðs sem minntist strax á þetta í fyrstu álitum á fjármálaáætlun. Kostnaðar- og ábatagreining getur haft gríðarleg áhrif á afkomu ríkissjóðs. Það þarf ekki endilega að skila eins gríðarlega miklum afgangi ef kostnaðar- og ábatagreining liggur fyrir, hún skilar okkur þá í þeim mun meiri plús fyrir framtíðina að gera. Það voru ákveðin atriði sem komu þar fram sem renna stoðum undir það að þetta eigi að gera og var auðvitað ástæðan fyrir því að þetta var sett í lögin.

Það er mjög greinilegt í greinargerð frumvarpsins að þetta snýst um stefnu stjórnvalda. Númer eitt að taka þau markmið sem eru þar, skoða hugmyndir að leiðum til þess að komast að þeim markmiðum og meta hverja og eina hugmynd, meta hver er ábatinn og hver er kostnaðurinn af hverri leið. Hversu mikið kostar hver leið, hver er ábatinn af hverri leið? Þá er hægt að segja: Við völdum þennan kost en ekki hinn af því að það kemur einfaldlega betur út, miklu betur út. Ef munurinn er lítill þarf að taka pólitíska ákvörðun um hvort eitt er valið en ekki annað.

Hitt, sem var einmitt minnst á hér, er endurmat útgjalda sem er endurskoðun á þeim ramma sem er þegar í gangi og hefur verið samþykktur inn í heildarupphæðina. Við þurfum að sjálfsögðu alltaf að vera að skoða það mjög vel (Forseti hringir.) hvort enn sé verið að nýta þá fjármuni vel en ekki bara þá nýju sem eru að koma inn eða fara út.