150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Velsældarhagkerfið og þau lífskjaraviðmið sem eru þar undir eru augljóslega byrjunin, það eru ákveðin grunnskilyrði sem þarf að setja á mælaborðið. Margar rannsóknir liggja að baki lífskjaraviðmiðum OECD. Það er mjög auðvelt að byrja þar. Við eigum að vera að safna þeim gögnum saman hvort sem er þannig að það á að vera mjög auðvelt að byrja þar.

Í andsvari fjármálaráðherra áðan var talað um að kostnaðarmeta og ábatagreina allt, en málið snýst ekki um það. Það snýst um að kostnaðargreina og ábatameta stefnu stjórnvalda, breytingar sem verið er að gera á núverandi fyrirkomulagi. Umfangið á því er miklu minna en kannski var látið í veðri vaka hér áðan. Þar fyrir utan erum við síðan alltaf með þetta verkefni um endurmat útgjalda sem er alveg jafn mikilvægt, það þarf stöðugt að vinna að kostnaðarmati þar fyrir innan.

Aðalatriðið er að þegar verið er að leggja fram stefnu stjórnvalda og breytingar á núverandi fyrirkomulagi, sé það vel útskýrt af hverju og hvaða ábata við höfum af þeim breytingum.