150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að reyna að setja mig inn í þessar hugmyndir hv. þingmanns um annars vegar velsældarhagkerfið og hins vegar kostnaðar- og ábatagreiningu. Ég vil byrja á að segja að í grunninn tel ég mjög mikilvægt að hafa góðar upplýsingar um samfélagið og byggja á þeim og ég held að tekjusagan.is sé dæmi um vettvang sem er gríðarlega mikilvægur til að hafa upplýsingar um hluti. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í hugmyndir hans um kostnaðar- og ábatagreiningu. Mér finnst þetta hljóma pinkulítið eins og einhvers konar sjálfvirknivæðing eða geta verið það fyrir ríkisfjármálin. Ég held að við þurfum alltaf að spyrja: Kostnaður fyrir hvern og ábati fyrir hvern? Hvernig dreifist kostnaðurinn á ólíka hópa og hvernig dreifist ábatinn á ólíka hópa? Það skiptir sem sagt máli hvernig þetta er, en ekki bara einhver meðaltöl. Þess vegna þurfum við alltaf að taka pólitískar ákvarðanir um það hvernig við ráðstöfum fjármagninu.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fjalla aðeins nánar um það og líka um velsældarhagkerfið. Þetta er hugtak sem við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum notað og teljum mikilvægt en það er þá til mótvægis við það hagvaxtardrifna hagkerfi sem við höfum notast við síðustu árhundruðin og tengist því hvernig við getum tekist á við loftslagsmarkmið okkar því að þar gengur ekki alltaf að stækka kökuna. (Forseti hringir.) Mig langar að biðja hv. þingmann að fjalla um hugmyndir sínar í því pólitíska samhengi.