150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið alveg heils hugar undir ástæðu til að hafa aðgengilegri gögn. Tekjusöguvefurinn mætti líka vera aðgengilegri. Maður mætti geta tekið meira af grunngögnunum, ekki bara séð línurit og slíkt, til að geta fiktað með þau sjálfur, til að geta skoðað það jafnvel sjálfur, t.d. ef ég legði til smábreytingar á tekjuskatti hér eða þar eða persónuafslætti vildi ég geta séð hvaða áhrif það hefði á ýmsa hópa.

Hv. þingmaður tengdi dálítið vel saman kostnaðarmat og ábatagreininguna og svo velsældarhagkerfið og mælaborðið. Nei, þetta er ekki alveg sjálfvirknivæðing því að mjög mikil vinna fer í kostnaðar- og ábatagreininguna og að velja hvaða hluti á að skoða varðandi dreifingu o.s.frv. Það er tvímælalaust pólitík í því hvaða atriði eru skoðuð og hvaða atriði ekki og tvímælalaust yrðu pólitískar deilur um það. Af hverju skoðuðuð þið ekki hitt og þetta? yrði spurt. Við viljum sjá hver ábatinn væri af því að fara þessa leið en ekki hina. Það er fullt af málum sem er hægt að tala um þar. Þar væri engin sjálfvirkni sem slík.

Þetta hnýtir samt saman þessi mál um kostnaðar- og ábatagreininguna og síðan velsældarhagkerfið. Í velsældarhagkerfinu erum við með fjölbreytta mælikvarða sem ég taldi upp í ræðunni áðan, hvernig líf og starf er, húsnæði, samfélagsleg þátttaka og ýmislegt svoleiðis. Markmið stjórnvalda er að gera betur. Við stöndum okkur illa í húsnæðisliðnum í velsældarhagkerfinu og við ætlum að leggja til aðgerðir til að gera betur þar. Þá er það strax orðið mælanlegt upp á það hvort aðgerðirnar skili sér að lokum. Þær aðgerðir sem eru lagðar til þarf að kostnaðarmeta og ábatagreina hverja fyrir sig og velja síðan í fjárlögum hvort við förum þessa eða hina leiðina eða hvort við bætum jafnvel við og gerum tvær eða þrjár af þeim aðgerðum sem eru lagðar til af því að það myndi skila okkur það miklu framar á þessum mælikvarða en ekki bara út frá hagvexti. (Forseti hringir.) Við getum séð samfélagslegan ábata þó að hann endurspegli ekki nákvæmlega hagvaxtarlegan ábata.