150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má vera að hv. stjórnarliðar hafi hugsað sér að setja betri heilbrigðismál einhvern tímann á dagskrá en þau eru greinilega ekki á dagskrá á árinu 2020. Það getur ekki gengið að Landspítalinn eigi að bera einhverjar reiknivillur úr fjármálaráðuneytinu og láta það koma niður á þjónustu við sjúklinga. Það dylst engum sem hefur þurft að leggjast inn á Landspítalann eða Sjúkrahúsið á Akureyri, né aðstandendum þeirra, að þar er óhemju mikið álag á fólki og þörf mikil fyrir bæði fjármagn og mannskap. Ég fór í gegnum þá reynslu í sumar að skoða bæði aðstæður á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á Landspítalanum. Það kemur ekki til greina, frú forseti, að þetta þing geti samþykkt að senda Landspítalann með 4 milljarða kr. halla inn í árið 2020 og gera auk þess aðhaldskröfu upp á hálfan milljarð til viðbótar og standa svo hér í pontu og segja, eins og hv. formaður fjárlaganefndar gerir, að það sé á dagskrá að bæta heilbrigðiskerfið á Íslandi. Þetta gengur ekki.