150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hjó eftir því að hann nefndi það sérstaklega að einfalda skattkerfið. En nú er ríkisstjórnin að fara að flækja það frekar með því að bæta við skattþrepi. Það segir einnig í frumvarpinu á einum stað, frú forseti, að það eru afskrifaðir áður tekjufærðir skattar upp á 17 milljarða kr. Þetta er gríðarlega há upphæð og fróðlegt væri að vita hvort hv. þingmaður hefði vitneskju um það hvers lags skattar þetta væru að meginstofni til.

Síðan langar mig aðeins að spyrja hv. þingmann um erfðafjárskattinn sem á að skila u.þ.b. 5,1 milljarði í frumvarpinu, hvort það séu einhverjar hugmyndir um að breyta honum. Það hefur verið svolítið rætt og komið fram í ræðu og riti þingmanna Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.) Eru hugmyndir um breytingar í þá veru að draga úr skattheimtu á því sviði?