150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar ágæta yfirferð. Þetta var býsna löng upptalning á mörgum verkefnum sem við getum örugglega sammælst um að séu öll hin ágætustu en nú fer í hönd vinna fjárlaganefndar með þetta frumvarp. Við munum senda það fjölmörgum hagsmunaaðilum til umsagnar og fá mat þeirra á þeim áformum sem þarna eru kynnt. En þá veltir maður auðvitað fyrir sér: Byggjum við þetta frumvarp á raunhæfum forsendum? Erum við að kalla eftir umsögnum hagsmunaaðila um þann veruleika sem við er að glíma? Verðum við í stöðu til að standa við þau loforð sem eru gefin?

Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann og formann fjárlaganefndar: Hefur hann trú á þeim efnahagsforsendum sem þetta frumvarp er byggt á, sérstaklega þegar við sjáum birtast á hverjum degi í hverri viku fréttir af því að hér séu hlutir að þróast til verri vegar? Vissulega er margt ágætt í efnahagslífinu sem betur fer en engu að síður (Forseti hringir.) er hvergi að sjá þá miklu bjartsýni sem einkennir hagspá Hagstofunnar, m.a. bara í orðum aðstoðarseðlabankastjóra sem sagði (Forseti hringir.) nýverið að botninum væri ekki náð.