150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir spurninguna. Þetta er í raun stóra spurningin sem við eigum að spyrja okkur. Ég kom inn á í ræðu á mjög faglega og gagnlega umfjöllun, að mér finnst, í kafla 2.3 um hagþróun í viðskiptalöndunum og ýmsar vísbendingar, jafnvel hér heima fyrir, um að ekki verði jafn mikill hagvöxtur eða snögg umskipti í hagsveiflunni og við kjósum kannski að horfa til og liggja sannarlega til grundvallar þessu fjárlagafrumvarpi.

Ég get auðvitað staðið keikur og sagt: Ég hef fulla trú á þessu, en maður horfir bara á veruleikann eins og hann er og það getur brugðið til beggja vona. Ég met það svo að við höfum lagt grunninn mjög vel í endurskoðaðri stefnu og ríkisfjármálaáætlun sem liggur til grundvallar fjárlagafrumvarpinu, sem eykur líkurnar á því að þetta gangi upp. Vonandi gerir það það og ég hef fulla trú á því. Ég get fullyrt að sú vinna eykur líkurnar á því. (Forseti hringir.) Ég vil jafnframt nefna að við erum að vinna á móti hagsveiflunni. Þær aðgerðir sem ég taldi upp koma til með að gagnast (Forseti hringir.) til að vinna gegn niðursveiflunni.