150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég óttast að efnahagslegar forsendur þessara fjárlaga muni ekki standast og hvergi nærri. Hér er t.d. tveir einfaldir þættir sem hægt er að benda á. Byggingariðnaðurinn er í samdrætti, ekki myndarlegum vexti eins og gert er ráð fyrir í hagspá næsta árs. Það hefur veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs enda er þetta mjög umsvifamikil atvinnugrein í hagkerfinu. Það hefur líka áhrif á útgjöld því að vænta má, vegna þess hversu margir starfa í byggingariðnaði, að atvinnuleysi verði meira en ella. Þetta kemur m.a. fram í nýlegum gögnum Samtaka iðnaðarins í morgun þar sem talað er um að það sé tekið að dragast saman. Þetta sést í sementssölu þar sem er fimmtungssamdráttur á milli ára. Það segir okkur að þessi atvinnugrein er komin í samdrátt og þar af leiðandi er algerlega óraunhæft að búast við 10% vexti á næsta ári.

Við sjáum líka að innflutningur er að dragast verulega saman. Innflutningur er verulega tekjuskapandi fyrir ríkissjóð, t.d. er bílainnflutningur mjög tekjumyndandi fyrir ríkissjóð, (Forseti hringir.) þannig að væntingar um myndarlegan vöxt í innflutningi á næsta ári eru í besta falli bjartsýnar. Ég óttast að hér sjáum við settar fram vísvitandi allt of bjartar horfur, sem okkur ber engin skylda til að gera, (Forseti hringir.) bara til þess að ríkisstjórnin geti staðið hér og veitt innstæðulaus loforð í umræðu um fjárlög.