150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Fjárlögin 2020, ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá í heimsókn fulltrúa ráðuneytanna til að kynna fyrir okkur sín útgjöld, sinn samdrátt og sinn rekstrarvanda og allt þar á milli. Mig langar sérstaklega að byrja á því að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans vösku framgöngu og mikla aðhald sem ég upplifi að hann skili í fjárlaganefnd. Hann er einn af þeim sem ég myndi segja að væru virkilega með puttann á púlsinum. Ef við værum fleiri eins klók og hann í peningamálunum, hvað lýtur að ríkissjóði, væri staðan kannski pínulítið önnur.

En þrátt fyrir að þetta fjárlagafrumvarp einkennist af mikilli bjartsýni, djörfung og dug eru ýmsir óvissuþættir og margir endar sem maður nær ekki alveg utan um, t.d. sú frábæra bjartsýna hagspá sem boðuð er strax á næsta ári, aukinn hagvöxtur strax á næsta ári. Það er kannski ekkert leiðinlegt að vera bjartsýnn hvað það varðar eftir þá niðursveiflu sem við höfum þurft að horfast í augu við á því ári sem nú fer í hönd.

Við þekkjum öll fall flugfélagsins, loðnubrest og annað slíkt og auðvitað spilar þetta allt saman inn í en það breytir ekki þeirri staðreynd að þarna eru ákveðnir vendipunktar sem mér finnast verulega jákvæðir. Eins og ég hef svo sem nefnt áður í morgun er það í fyrsta lagi að tala um yfirlýst markmið, bæði hæstv. fjármálaráðherra og nýskipaðs seðlabankastjóra, um að hér sé að skapast og hafi skapast grundvöllur til frekari vaxtalækkana. Það er sú kjarabót sem sérstaklega var verið að kalla eftir, ekki síst í vor þegar í hönd fóru lífskjarasamningarnir. Mér þykir það afskaplega jákvætt en það breytir ekki þeirri staðreynd að við vitum öll að fjárlagafrumvarpið byggir á fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem við höfum svo sannarlega þurft að fjalla um. Þegar hún var prentuð fyrst í fyrra hafði maður á tilfinningunni að þá þegar hefðu allar forsendur hennar brostið og enn frekar þegar í ljós kom það sem ég áður nefndi, hrun flugfélags og loðnubrestur, þannig að við þurftum að taka hana upp alveg upp á nýtt. Hún kom aftur fram í júní sl.

Hvað fjárlagafrumvarpið sjálft varðar langar mig sérstaklega að tala um hvernig staða heilbrigðisþjónustunnar er. Við fengum til okkar fulltrúa Landspítala – háskólasjúkrahúss sem sýndi okkur þann mikla rekstrarvanda sem sjúkrahúsið á við að glíma, hvernig við forgangsröðum fjármunum þar sem við eigum að vera aðhaldið, hvernig við förum með fjármuni almennings, hvernig fráflæðisvandinn sem kostar meira en nokkurt annað hjúkrunarrými eða nokkurt annað úrræði sem upp á er að bjóða er viðvarandi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og hve erfitt virðist vera að ná utan um þá manneklu sem er í heilbrigðiskerfinu. Það vantar hjúkrunarfræðinga og fleira starfsfólk til þess a.m.k. manna þó það sem við höfum upp á að bjóða, samanber nýtt hjúkrunarheimili sem reist var á Seltjarnarnesi.

Eins og ég sagði líka er í raun alveg sama hvert litið er, það er vandi. Við erum í virkilegum vanda með heilbrigðiskerfið og landsmenn eru almennt mjög ósáttir við endalausa bið. Það skiptir ekki máli hvort það er bið eftir því að komast til læknis eða bið eftir því að láta laga á sér eyrað eða hnéð eða hvað annað sem er. Ég hef þurft að ganga í gegnum það upp á síðkastið að heimsækja þessa blessuðu heilbrigðisþjónustu þó að það sé ekki fyrir mig heldur sem aðstandandi. Ég verð að viðurkenna að við hefðum hreinlega öll gott af því að kíkja á þá og þykjast vera einhver önnur en við erum þannig að við fengjum ekki að ganga fram fyrir röðina, að vera hinn almenni Íslendingur sem þarf að leita á náðir heilbrigðiskerfisins. Það er sannarlega þess virði að skoða.

Ég ætla að venda mínu kvæði í kross og tala um að þótt sannarlega sé verið að boða skattalækkanir sem fram eiga að koma á næstu tveimur árum breytir það ekki þeirri staðreynd að það er ekkert gert til að taka utan um þá sem einungis lifa á framfærslu frá almannatryggingum og hafa ekkert annað. Í skattalækkunarkynningu hæstv. fjármálaráðherra er talað um þá sem eru á launabilinu 325.000–600.000. Mér þætti gaman að hitta þann öryrkja sem er með 325.000 kr. á mánuði. Ég efast um að þeir séu fleiri en fingur annarrar handar. Við verðum að átta okkur á því að um 22.000 öryrkjar eru í landinu, einhverjir hafa lífeyrisréttindi, einhverjir hafa slasast hrikalega og dottið til baka og farið inn á kerfi, en hvað verður þá um þá þar? Lífeyrissjóðurinn þeirra verður að engu og þau eru náttúrlega skert og ef þau hafa átt eignir fyrir, húsnæði og annað slíkt, geta þau bara gleymt því. Þau geta skilað því inn eða látið gera sig gjaldþrota eða hvaðeina. Það er ekki tekið nógu vel utan um þessa hópa. Ef við viljum reyna að standa undir því að fá að vera hamingjusöm, og helst hamingjusamasta land í heimi eins og við ættum að geta gert, verðum við að reyna að láta það gilda fyrir alla.

Þarna segi ég, eins og með fjárlögin okkar: Hugsa sér að við skulum ítrekað þurfa að koma inn með fjárauka — og nú ætla ég að tala um Sjúkrahúsið Vog. Ég er að tala um SÁÁ. Ég ætla að tala um bráðaþjónustu. Nú er t.d. viðurkennt að hér sé kominn kókaínfaraldur ofan í ópíóíðafaraldurinn, sterkari lyf á markaði, ítrekað er komið inn með fólk á öllum aldri og úr öllum stéttum sem er búið að taka þetta í nefið og er gjörsamlega við dauðans dyr. Hvað erum við að gera í því? Ég spyr: Hvar eru allar forvarnirnar? Hvað erum við að gera í því? Mér finnst það lítið og löðurmannlegt, ég verð að segja alveg eins og er. Fjárveitingavaldið, fjárlaganefnd, kom með inn í þingið í desember í fyrra viðbótarframlög til SÁÁ. Hver einasti þingmaður sem ég hef talað við hér inni skildi fjárveitinguna eins og ég. Við vildum sannarlega koma til móts við bráðavandann á Sjúkrahúsinu Vogi og fárveikt fólk sem þurfti á fyrstu meðferð að halda.

Ef ég á að segja ykkur alveg eins og er hefur engin varanleg aukafjárveiting verði sett inn til SÁÁ í fjárlagafrumvarpinu, ekki króna. Það þarf enn að koma bónleiðina og athuga hvort einhvern veginn verði hægt að koma því aftur í gegn á hinu háa Alþingi að fjárveitingavaldið sjái aumur á fólkinu okkar og komi með aukafjárveitingu inn í málaflokkinn. Að hugsa sér. Væri ekki einfaldara og betra fyrir okkur öll að við kæmum þessu þangað sem það á heima, inn í fjárlögin, að við viðurkenndum vandann? Ég get sagt ykkur það að miðvikudaginn fyrir verslunarmannahelgi var hringt af Vogi í fársjúkt fólk sem var búið að pakka niður í tösku og átti að leggjast inn daginn eftir og sagt: Því miður, við getum ekki tekið á móti ykkur. Það er svo mikill bráðavandi að við eigum ekki rúm. Við eigum ekki rúm fyrir ykkur, þið verðið að hætta við. Hvað verður um fíkilinn, hvað verður um eiturlyfjafíkilinn okkar og alkóhólistann þegar hann loksins er búinn að taka ákvörðun og tilbúinn að fara inn á Sjúkrahúsið Vog þegar hann fær svona skilaboð? Því miður, þú verður að bíða aðeins lengur.

Ég held að flestir fari þá bara út og detti í það, ég verð að segja það.

Hvað um það, við getum gert betur og ég veit það. Í stóra samhenginu, til að koma til móts við þetta og laga þetta eins og við virkilega getum gert, erum við að tala um smáaura. Við erum að tala um minna en þegar við vorum að innleiða nýtt Microsoft-kerfi, þjónustukerfi við Microsoft. Við erum búin að vera að greiða af því í meira en eitt og hálft ár áður en kerfið kemur til framkvæmda. Er þetta flott meðferð á almannafé? Síðan kemur í ljós hjá yfirstjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss, þegar það kemur fyrir fjárlaganefnd, að í stað þess að borga 50 milljónir fyrir þessar tölvuþjónustu þarf Landspítalinn að greiða núna 200 milljónum meira. Þjónustan sem við erum að gera svona frábæra kostar Landspítala – háskólasjúkrahús núna 250 milljónir í stað 50 milljóna áður. Ef þetta er snilldarfjárfesting og vel farið með almannafé segi ég: Nei. Ég vildi hafa fengið þessar 200 milljónir strax, sett þær beint inn á Sjúkrahúsið Vog og hjálpað unga fólkinu okkar og fíklunum okkar sem eru allt of margir við dauðans dyr.