150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvarið. Rúmlega 3.000 öryrkjar af 21.000 á þessu tekjubili sem hæstv. ráðherra nefnir segir okkur væntanlega að ríflega 18.000 heyra undir það sem ég er að tala um, sem eingöngu hafa framfærslu frá Tryggingastofnun og lítið sem ekkert annað. Það segir sig sjálft að þegar maður fær útborgaðar 246.000 kr. eða svo og á að fá á næstu tveimur árum sennilega 5.800 kr. — er það ekki upphæðin sem þessi hópur fær, ef ég skil rétt, þegar það er komið til fullra framkvæmda? — guð minn góður. Ég bara skammast mín að tala um það, þetta er svo lítið.

Við erum að tala um 21 milljarð sem þessar skattalækkanir kosta. Hefðum við ekki hugsanlega getað nýtt það pínulítið betur? Er alveg gjörsamlega ómögulegt að hætta við að lækka bankaskatt? Hvað sýndu bankarnir t.d. mikinn arð núna? Er ekki hægt að taka meira af auðlindunum okkar? Er ekki hægt að færa til fé og fjármuni á augljósari hátt og sýna virkilega í verki að við viljum hjálpa öllum en ekki bara sumum? Alþingi Íslendinga skrapar botninn hvað lýtur að trausti almennings, trausti þjóðarinnar til okkar. Það er svona sem við förum að því að byggja upp traust, með að sýna í verki að við vinnum fyrir alla.