150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að gera smáleiðréttingu. Ég hafði aðeins lesið vitlaust í gögnin hjá mér en það eru ekki 3.300 heldur rúmlega 5.300 öryrkjar sem eru með tekjuskattsstofn á bilinu 300.000–350.000. Ég er ekki kominn hingað upp til að halda því fram að það séu háar tekjur, þvert á móti geri ég mér grein fyrir því að við erum að tala um lágtekjuhópa. Þetta tek ég fram vegna þess að því var haldið fram að langflestir væru langt þar frá. Þetta eru stórir hópar og þeir telja um 5.300 sem þiggja örorkubætur og eru á þessu tekjubili.

Að öðru leyti vil ég vísa í svar frá 148. löggjafarþingi, 2017–2018, til hv. þm. Óla Björns Kárasonar, um greiðslur Tryggingastofnunar til eldri borgara og öryrkja. Þetta er svar sem félags- og jafnréttismálaráðherra lagði fram á þskj. 174, 57. mál. Þar kemur fram (Forseti hringir.) að við höfum verið í mjög miklu átaki til að bæta kjör þessara hópa en vinnan heldur áfram.