150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að mótmæla því sem mér fannst mega skilja á ræðu hv. þm. Ingu Sæland áðan um að alþingismenn nytu einhvers konar forgangs í heilbrigðisþjónustunni, að við þyrftum að prófa að bíða eftir að að okkur kæmi eins og annar almenningur í landinu. Þvílíkt og annað eins bull, frú forseti. Að sjálfsögðu förum við inn í heilbrigðiskerfið eins og allir aðrir í þessu samfélagi og okkar góða heilbrigðisstarfsfólk mismunar ekki fólki eftir því hvort það er alþingismenn eða gegnir einhverjum öðrum stöðum. Þessu finnst mér bara ekki hægt að láta ósvarað úr þessum ræðustól.

Á morgun verður nánari umræða á fagsviði hvers og eins ráðherra en af því að hv. þingmaður kom aðeins inn á fráflæðisvandann og að það þurfi að koma fólki annars staðar fyrir er einmitt tekið á því í þessu fjárlagafrumvarpi þar sem er verið að setja aukið fjármagn, 1,8 milljarða, í uppbyggingu á hjúkrunarrýmum. Svo er líka verið að setja tæpa 2 milljarða í reksturinn á hjúkrunarrýmum vegna þess að auðvitað hækkar rekstrarkostnaður þegar við fjölgum hjúkrunarrýmunum. Á þessu er verið að taka í fjárlagafrumvarpinu.

Svo verð ég að lokum að segja um kjör öryrkja að það er gott og það er mikilvægt og við eigum að bæta kjör öryrkja en það er líka mikill ábyrgðarhluti að tala rétt um þessi mál. Það á ekki að gefa í skyn að almennar breytingar (Forseti hringir.) sem gerðar eru til að mynda á skattkerfinu nýtist ekki öllum. Að sjálfsögðu nýtist það (Forseti hringir.) líka örorkulífeyrisþegum því að þeir eru partur af þessu samfélagi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)