150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég veit ekki hvernig stendur á því að hún hefur ekki áttað sig á því að við tilheyrum forréttindahópi. Ég hef alla vega gert það. Síðan ég varð þingmaður hefur líf mitt gjörbreyst í allri þjónustu sem lýtur að mér úti í samfélaginu, allri. Það skiptir ekki máli hvort ég hringi í Tryggingastofnun og bið um að fá einhverja þjónustu sem áður tók langan tíma að fá og aldrei gat ég fengið samband við lögfræðing af því að þeir höfðu ekki tíma. Núna er mér bara gefið samband beint á hann þótt ég hafi ekki einu sinni beðið um það um leið og vitað er að þingmaður er í símanum, svo það sé sagt.

Í öðru lagi þegar er verið að tala um öryrkja — hv. þingmaður hefur aldrei vitað það alla sína ævi, held ég, hvernig er að lifa á örorkubótum. Ég held ekki. Ég held að ég sé ekki fara með fleipur þegar ég segi það. Það hvernig maður upplifir sína stöðu, að þurfa að reiða sig á þá ölmusu eða hafa ekki gert það. Ég legg það ekki að jöfnu. Ég býst ekki við að það sé sambærilegt.

Þegar verið er að tala um eins og hv. þingmaður — ég man ekki það sem hún sagði í miðjunni, ég skrifa aldrei neitt niður en kannski vill hv. þingmaður minna mig á það. (Gripið fram í.) Já, nákvæmlega. Nú eru 375 manns á biðlistum eftir rými á hjúkrunarheimilum. Það er alveg sama þó að það sé verið að reyna að gefa í núna, það þarf að gera miklu betur og miklu meira ef það á að virka.