150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er ánægjulegt að við skulum hafa svona skemmtilega alþingismenn hérna sem heyja og húrra og hlæja og skella hér allt í kring. Það er svakalega mikið þroskastig, þetta er næstum því eins og ég upplifði mig í gær þegar ég hélt ræðu hér og talaði um fátækt. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að ég kynni mig aldrei sem alþingismann. Það er sennilega nóg að heita Inga Sæland, sú eina á allri jörðinni, þannig að ég kynni mig venjulega svoleiðis, svo það sé sagt.

Hvort það sé keppni í heppni um það hvor okkar er meiri öryrki er ekki það sem ég var að tala um. Það er ekki það sem ég var að meina. Hv. þingmaður snýr út úr því sem ég var að segja og ég býst við að hún hafi algjörlega skilið mig.