150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir hennar ræðu og innlegg í þessa umræðu. Hv. þingmaður situr í hv. fjárlaganefnd og kom aðeins inn á störf nefndarinnar. Nú eru þetta þriðju fjárlögin sem nefndin tekur til umræðu og umfjöllunar. Þar á milli hefur þessi sama nefnd farið í gegnum ríkisfjármálastefnu í tvígang og ríkisfjármálaáætlun, allt sem þar liggur til grundvallar, og sinnt sínu hlutverki, sem er auðvitað mikilvægt, í öllu aðhaldi ríkisfjármála og eftirliti með ríkisfjármunum sem hv. þingmaður kom inn á.

Hv. þingmaður kom inn á störf nefndarinnar og tilgreindi hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Ég get alveg staðfest að hann stendur sig afar vel. En ég vil segja það um hv. fjárlaganefnd að í heild sinni sinnir hún mjög mikilvægu hlutverki og hefur lagt sig fram um það, þann tíma sem ég hef setið í nefndinni. Þar er bæði fjölþætt þekking og mikil reynsla og ég get hrósað allri nefndinni og öllum hv. þingmönnum sem eiga sæti í henni fyrir afar gott vinnuframlag. Ég held að allir nefndarmenn séu mjög meðvitaðir um sitt hlutverk.

Hv. þingmaður kom inn á og hefur ítrekað bent á hvað það er mikilvægt fyrir bætt kjör landsmanna að vextir lækki í landinu. Meginvextir Seðlabankans hafa aldrei verið lægri. Nú vil ég spyrja hv. þingmann um ástæður og forsendur þess að vextir eru að lækka í landinu, sem hv. þingmaður er svo ánægð með, eins og við eigum að sjálfsögðu öll að vera.