150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir andsvarið. Ég tek undir hvert orð. Ég er náttúrlega afskaplega stolt af allri fjárlaganefnd og ekki síst sköruglegri stjórnun formannsins. En ég gat ekki stillt mig um að taka sérstaklega út fyrir sviga hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, eins og formaðurinn veit er hann einstaklega kappsamur.

En hvað lýtur að vaxtalækkun, sem ég tel að sé einhver mesta kjarabót okkar, þá spila ýmsir þættir þar inn í. Þar skiptir sérstaklega máli, eins og hefur komið fram og hv. þm. Willum Þór tiltók sjálfur í sinni ræðu áðan og hæstv. fjármálaráðherra kynnti okkur sérstaklega þegar hann kynnti fyrir okkur fjárlagafrumvarpið á sínum tíma, þetta samspil sem er núna á milli peningastefnunnar og ríkisbúskapsins, þetta er farið að harmónera betur saman. Það þýðir ekki síst að það gætu jafnvel verið forsendur lengra séð fram í tímann til að lækka vexti. Það finnst mér algjörlega frábært. Svo við tölum ekki um lífskjarasamningana og þann stöðugleika sem við höfum náð og lága verðbólgu. Umgjörðin er öll í þá átt núna. Það var ekki heldur farið fram með neinu offorsi í kjaramálunum í vor, eins og við vitum öll, heldur var meira kallað eftir breytingum og við reyndum að koma til móts við það og fólkið í landinu og fyrirtækin með lækkun vaxta. Það er nákvæmlega það sem við sjáum nú og ég vona svo sannarlega að gangi eftir.