150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020. Í upphafi máls er rétt að taka fram að þó að gagnrýnin geti oft verið mikil og óvægin í þessum sal er auðvitað margt mjög vel gert og margt sem við getum öll verið sammála um, t.d. mikilvægi þess að forgangsraða í þágu bættrar menntunar, aukna áherslu á velferðarmál og heilbrigðismál og um mörg af þeim verkefnum sem hér er lagður grunnur að er vafalítið þverpólitísk samstaða í þessum sal.

Ég vil hins vegar gera þrjú atriði að umræðuefni í máli mínu sem ég held að við þurfum að gæta sérstaklega að. Það skiptir mjög miklu máli að við reisum áform okkar og áætlanir á raunhæfum forsendum og þá vil ég ræða sérstaklega efnahagslegar forsendur þessa fjárlagafrumvarps. Ég vil líka ræða þann skort sem er á opinberri fjárfestingu sem kemur mjög skýrt fram í frumvarpinu og er orðið viðvarandi og langvinnt vandamál í opinberum fjármálum og síðast en ekki síst þann algera skort sem er á skýrum markmiðum með útgjaldaaukningu þeirri sem hér er stefnt að og raunar hversu lítið mat við leggjum á nýtingu fjármuna í ríkisrekstri frá ári til árs.

Ef við horfum fyrst á efnahagslegu forsendurnar er gert ráð fyrir tæplega 3% hagvexti í þjóðhagsspá Hagstofunnar sem er ein sú bjartsýnasta sem við höfum til viðmiðunar. Mér þykir ríkisstjórnin nálgast þetta viðfangsefni þannig að henni sé nauðugur einn kostur að nota þjóðhagsspá Hagstofunnar til viðmiðunar, alveg sama hvað aðrir sérfræðingar á markaði segja. Það er einfaldlega ekki rétt. Það segir skýrt í lögum um opinber fjármál að horfa skuli til opinberra þjóðhagsspáa. Þær eru fleiri en ein, m.a. vinnur Seðlabankinn sína hagspá, sem er ekki jafn bjartsýn og hagspá Hagstofunnar, og til eru spár annarra sérfróðra aðila, svo sem greiningardeilda bankanna.

Það vekur upp spurninguna: Hvers vegna hengir ríkisstjórnin sig aftur og aftur í bjartsýnustu spána? Þetta hefur verið viðvarandi vandamál. Við tókum þá umræðu þegar við ræddum forsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar í fyrsta skipti þar sem ítrekað var talað um af hálfu fjölda sérfróðra aðila að forsendur væru allt of bjartsýnar. Við tókum þá umræðu aftur í fjárlagaumræðunni fyrir ári síðan. Við tókum þá umræðu aftur þegar við þurftum að taka fjármálaáætlun og fjármálastefnu upp frá grunni fyrr á þessu ári. Í öllum tilfellum hefur sú gagnrýni reynst fyllilega réttmæt. Það er unnið út frá allt of bjartsýnum forsendum. Það er unnið út frá von um hagþróun sem aldrei hefur gengið eftir í hinu sveiflukennda íslenska hagkerfi.

Hagstofan spáir tæplega 3% hagvexti á næsta ári og þá er m.a. horft til verulegrar aukningar á fjárfestingu sem hvergi sér merki um í hagkerfinu í dag. Það er þvert á móti að kólna. Það er engin ástæða til að draga upp of dökka mynd. Hagkerfið stendur alveg ágætlega. Þetta er ekki einhver kreppa eða hrunástand sem við erum að fara í gegnum. Þetta er bara spurningin um að sýna hæfilega varfærni þannig að tekjur ríkissjóðs standi undir því útgjaldastigi sem verið er að stilla af af þessari ríkisstjórn. Við sjáum samdráttinn sem á sér stað í byggingariðnaði, fréttir frá Samtökum iðnaðarins í morgun þar sem taldir hafa verið umtalsvert færri grunnar sem verið er að byrja á en frá því í vor eða fyrir ári síðan. Við sjáum sömu tölur í kranavísitölu Vinnueftirlitsins og í sementsölu. Það er einfaldlega ekki ástæða til að ætla að hagspá Hagstofunnar gangi eftir hvað varðar fjárfestingu í íbúðarhúsnæði, að það verði vöxtur á næsta ári upp á 10% og fjárfesting í íbúðarhúsnæði verði fjórðungur af allri fjárfestingu eða fjármunamyndun í hagkerfinu. Það eitt og sér gefur tilefni strax til að gæta varkárni í þeim efnum.

Þetta verðum við að hafa í huga, ekki hvað síst þegar kemur að þeirri staðreynd, sem er annar punkturinn sem ég myndi vilja gera að sérstöku umræðuefni, sem er lágt fjárfestingarstig hins opinbera. Það er búið að vera allar götur frá hruni viðbragð allra ríkisstjórna til að reyna að forgangsraða í málaflokkana að skera niður eða skera við nögl opinberar fjárfestingar. Það er einfaldlega svo að þegar við horfum á langtímameðaltal fjárfestingar hér á landi þá vantar á undanförnum tíu árum eða svo nærri 400 milljarða í innviðafjárfestingar til að við stöndum undir því meðaltali. Þetta er raunar mjög sambærileg tala og Samtök iðnaðarins birtu fyrir ári síðan eða svo. Mat þeirra á fjárfestingarsvelti innviða hér á landi, hvort sem horft væri til flugvalla, dreifikerfis raforku eða vegakerfisins ekki hvað síst, var að það vantaði nærri 400 milljarða. Það er gríðarleg há tala þegar við horfum á að ríkisstjórnin áformar að auka fjárfestingar um 10 milljarða þannig að þær séu áfram undir langtímameðaltali. Það dugar ekki einu sinni til að byrja að vinna á þessum halla. Það þyrfti að auka fjárfestingar hins opinbera a.m.k. um 30–50 milljarða á næstu tveimur til þremur árum.

Ég spyr: Ef ekki nú, hvenær þá? Það er slaki í hagkerfinu. Það er þörf fyrir slíka örvun. Það er ekkert vandamál að ríkissjóður sé rekinn með litlum sem engum afgangi eða jafnvel halla við þessar kringumstæður en það er mikið atriði að sá halli sé rétt samsettur, að við séum að forgangsraða í fjárfestingu, í skammtímaátaksverkefni en ekki að belgja út ríkisreksturinn þannig að við stöndum ekki undir útgjöldum ríkissjóðs í eðlilegu árferði. Það má ekki gleyma í því samhengi að þessi ríkisstjórn tók við búi þar sem við vorum í mikilli þenslu sem var mikil tekjuinnspýting fyrir ríkissjóð. Það er óábyrgt að byggja útgjaldaáform til langs tíma á slíkri froðu, eins og hún var kölluð á hrunárunum. Ég vil ekki nota það orð en við þekkjum það mjög vel í þessu sveiflukennda hagkerfi hvernig þenslan skilar ríkissjóði gríðarlega miklum tekjum. Á þeirri þenslu verða ekki áætlanir til margra ára byggðar og það er að koma á daginn eins og var varað við svo ítarlega.

Það þarf augljóslega að stokka upp fjárlagafrumvarpið og forgangsraða betur í átt til aukinna fjárfestinga. Mér finnst óásættanlegt að ríkisstjórn sem talar um að hún sé að lækka skatta boði á sama tíma að eina leiðin til þess að standa undir eðlilegu fjárfestingarstigi í hagkerfinu sé að rukka notendur líkt og í vegakerfinu um veggjöld. Það heitir skattahækkun. Þá er ekki verið að lækka skatta, það er verið að hækka skatta, þvert á það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað haldið fram í umræðu um opinber fjármál. Hér verðum við að gera bragarbót.

Þriðja og síðasta atriðið sem ég vil nefna er skortur á markmiðum. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi talað um stórsókn á öllum sviðum hins opinbera rekstrar og talað fjálglega, hvort heldur sem er ráðherrar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna eða Framsóknar, um þá gríðarlegu útgjaldaaukningu sem stefnt sé að í hverjum einasta málaflokki. Útgjaldaaukning er hins vegar ekki markmið í sjálfu sér. Það er hvergi að sjá, hvorki í þessu fjárlagafrumvarpi, í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar né fyrri fjárlagafrumvörpum, nein mælanleg markmið um hverju sú mikla útgjaldaaukning eigi að skila. Við höfum aukið útgjöld til heilbrigðismála um nærri 50 milljarða á þremur árum. Við erum enn þá að glíma við sambærilega biðlista og við glímdum við áður. Við heyrum enn þá sömu fréttir af sumarlokunum og svo mætti áfram telja. Við erum með hallarekstur á Landspítalanum við þær kringumstæður. Ég spyr: Hvar er árangurinn? Að hverju var stefnt með útgjaldaaukningunni? Það hlýtur að vera markmiðið sem við göngum út frá til að byrja með; bætt þjónusta í heilbrigðiskerfinu. Ekki að útgjöld til heilbrigðismála séu 11% af landsframleiðslu eins og hefur verið eiginlega eina markmiðið sem ríkisstjórnin hefur sett fram í þeim efnum. Það er þjónustan sem skiptir máli og hana má líka oft veita með hagkvæmari hætti, leita leiða til að veita hana með hagkvæmari hætti en ekki bara ausa fjármagni í vandamálið. Við þurfum að geta staðið undir heilbrigðiskerfi okkar til langs tíma og við vitum það, samhliða öldrun þjóðarinnar, að kostnaður þess mun aukast verulega, þjónustuþörfin mun aukast verulega. Þess vegna verðum við alltaf að gæta aðhalds. Sama á auðvitað við í menntakerfinu og víðar. Það er árangurinn sem skiptir öllu máli. Markmiðið um tilkostnaðinn getur ekki verið sjálfstætt markmið út af fyrir sig.

Ég vona að við náum umræðu um opinber fjármál á það stig að við ræðum meira um meginmarkmið útgjaldaaukningarinnar eða þeirra breytinga sem að er stefnt frá ári til árs í þjónustumarkmiðum en ekki kostnaðarmarkmiðum. Ekki hvað síst að við höfum einhverja mælikvarða á það hvaða árangri þeir fjármunir sem við erum að vinna með í opinberum rekstri skila frá ári til árs. Er sá árangur betri en á síðasta ári? Fáum við meira fyrir krónurnar í ár en í fyrra? (Forseti hringir.) Það skiptir gríðarlega miklu máli um ráðdeild í opinberum rekstri.