150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það eru margir áhugaverðir punktar þarna og kannski best að byrja á áhrifunum á peningastefnu. Það er augljóst að vextir eru að lækka svona ört núna, ekki út af einhverjum frábærum árangri í efnahagsstjórninni heldur af því að hagkerfið er að kólna. Seðlabankinn er að bregðast við kólnandi hagkerfi, ekki að klappa ríkisstjórninni lof í lófa fyrir að hafa staðið sig frábærlega í hagstjórninni. En vissulega er bent á að hóflegir kjarasamningar hafa skipt máli við að draga úr verðbólguvæntingum.

Við þær kringumstæður er hins vegar ekkert vandamál að auka sér í lagi opinberar fjárfestingar. Það er svigrúm til þess að örva hagkerfið af nákvæmlega sömu ástæðu og Seðlabankinn er að lækka vexti. Það er einfaldlega að myndast slaki í hagkerfinu. Þar geta ríkisfjármálin komið inn í. Þá skiptir svo miklu máli að beina því af þunga í fjárfestinguna en ekki bara í viðvarandi ríkisútgjöld, ekki belgja út báknið heldur fara í tímabundið fjárfestingarátak.

Það eru margs konar tækifæri sem við gætum nýtt. Það er rétt að Viðreisn vildi hafa þetta óvissusvigrúm jafnvel enn meira. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við stefndum að því beinlínis að reka ríkissjóð við þessar kringumstæður með halla, 0,5–1% halla, í eitt til tvö ár. Það er ekki vandamál ef þeim fjármunum er beint í réttan farveg, þ.e. fyrst og fremst í átak í fjárfestingum. Að sama skapi má auðvitað gagnrýna í þessu fjárlagafrumvarpi — hvað ætlum við að sitja lengi á þeim hundruðum milljarða sem bundnir eru í eigið fé bankakerfisins, hundruð milljarða sem ríkið getur beint í mikilvægar innviðafjárfestingar einmitt á þessum tíma? Ég held að þetta sé tímapunkturinn sem við ættum að vera að byrja að losa um það eignarhald til að breyta í raun og veru bönkum í brýr í stað þess að fara að skattleggja íbúa landsins meira til að geta ráðist í nauðsynlegar innviðafjárfestingar. Það er skynsamleg aðgerð og mjög í takt við þá forgangsröðun sem við í Viðreisn lögðum upp með í umræðum um breytingar á fjármálastefnu og fjármálaáætlun í vor.