150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að segja að fullyrðingin um að ríkisstjórnin hafi haft það sem sjálfstætt markmið að eyða hverri einustu krónu stenst auðvitað enga skoðun þegar skoðaður er afgangur á ríkisfjármálum undanfarin ár. Ef við skoðum nýjasta ríkisreikninginn sem kom út fyrr í sumar var ríkissjóður rekinn í fyrra með 84,4 milljarða afgangi. Þetta er ekki ríkisstjórn sem hefur eytt hverri einustu krónu.

Hins vegar vil ég taka undir margt sem hv. þingmaður kemur inn á og gera athugasemdir við annað. Í fyrsta lagi: Hagstofan er ekki alltaf með hagfelldustu hagspána, það er ekki þannig. Það er miklu nær að segja að Hagstofan og Seðlabankinn séu mjög nálægt í sínum spám og ef maður skoðar þær spár sem verið er að vísa til í umræðunni þá liggja þær á bilinu 1–2,5%. Það er bilið sem við erum að tala um. Það mætti kannski segja að menn hefðu átt að skjóta einhvers staðar þarna í miðjuna en við höfum um langt árabil miðað við spá Hagstofunnar sem hefur legið mjög nálægt því sem Seðlabankinn segir og það er opinbert og það eru forsendur sem við gefum okkur.

Þegar sagt er að við séum með mjög óábyrga útgjaldastefnu þá vaknar auðvitað spurningin: Hvar birtist það? Hv. þingmaður hefur velt upp þeirri spurningu: Hvar er árangurinn af því að auka útgjöldin? Svarið sést í því að við höfum verið að auka fjárfestinguna sem kallað er eftir að við gerum. Við höfum líka náð að gera mjög miklar kjarabætur, t.d. í gegnum almannatryggingar, það er gríðarlega fjárfrekt. Ætli það muni ekki einhvers staðar í kringum 70 milljörðum að raunvirði á ári hvað við höfum aukið útgjöld úr almannatryggingum borið saman við það þegar ég byrjaði í fjármálaráðuneytinu 2013. Það fer til öryrkja og ellilífeyrisþega. Við hljótum að mæla það sem einhvern árangur, að ná að lyfta undir kjör þeirra sem minnst hafa milli handanna. Síðan eru margir aðrir útgjaldaliðir eins og lyf og núna erum við að tala um þyrlukaup og margt fleira. Það er árangur í því.

Í seinna andsvari ætla ég að koma aðeins inn á tækifærin sem ég er sammála hv. þingmanni um að liggja í því að losa um fjárfestingu í fjármálafyrirtækjum.