150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Við skulum svo sem ekki að eyða löngum tíma í að deila um nákvæmni hagspáa. Við vitum hins vegar að þeim er hætt við að vanspá hagvexti í uppsveiflu og vanspá samdrætti í niðursveiflu. Það er bjögun sem við þekkjum mjög vel í hagspám og er m.a. ein ástæðan fyrir því að þessi mikli afgangur varð á árinu 2018 í ríkisreikningi, hagvöxtur þess árs varð á endanum mun meiri en menn höfðu gert ráð fyrir. Ríkisstjórninni tókst þar af leiðandi ekki að eyða hverri einustu krónu og stefndi raunar að því að vera með mun minni afgang en raunin varð. Að sama skapi stefnir í að afkoman á þessu ári verði mun lakari en að var stefnt, einmitt af sömu ástæðu, þ.e. við sjáum hvaða miklu áhrif sveiflur í hagvexti hafa á afkomu ríkissjóðs, bæði á tekju- og gjaldahlið. Það er kannski kjarni míns máls. Það þarf að sýna miklu meiri varfærni þegar við erum í kólnandi hagkerfi. Þá vitum við að okkur hættir frekar til að ofspá um hagvöxt heldur en hitt og þess vegna þarf að gæta enn betur að sér þannig að við lendum ekki aftur í því eins og á síðasta ári, að í nóvember, eftir að búið er að hitta alla hagsmunaaðila og fara yfir með þeim hvaða áform séu í gangi á útgjaldahliðinni, þurfum við síðan að skera þetta allt saman niður af því það reynist ekki innstæða fyrir þeim loforðum sem gefin voru. Þetta skiptir höfuðmáli.

Varðandi árangursmælikvarða er rétt t.d. að útgjaldaaukning til eldri borgara og öryrkja er mjög mikil á tiltölulega stuttum tíma. Að stórum hluta skýrist það af tvennum breytum varðandi eldri borgaranna, þeim breytingum sem gerðar voru á ellilífeyriskerfinu árið 2016, sem var mikil kjarabót fyrir ellilífeyrisþega, en hins vegar er auðvitað undirliggjandi mikil fjölgun. Þjóðin er að eldast. Það er líka varasöm þróun varðandi örorkulífeyri hvað örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað mikið sem endurspeglar ekki árangur heldur árangursleysi okkar í t.d. starfsendurhæfingu og í leiðum til að stemma stigu (Forseti hringir.) við þeirri þróun og leiðum til að hjálpa fólki til virkni að nýju (Forseti hringir.) sem lendir í tímabundnum starfsorkumissi.