150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mér finnst þetta gaman því að við erum að tala svolítið konkret um pólitík. Ég vil taka fram að verið er að gera ýmsa hluti í vegamálunum en það liggur alveg fyrir að gera þarf enn meira. Öll þau mál sem hv. þingmaður nefndi voru brýn en þetta eru líka mál sem spila að sumu leyti inn í lofslagsmarkmiðin, kannski sér í lagi umferðarlausnirnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að ein mínúta er ekki langur tími en mig langar að biðja hv. þingmann að færa sig aðeins inn á það hvernig hægt er að láta fjárfestingarmarkmið að hans mati ríma við loftslagsmarkmið okkar. Og vegna þess að hv. þingmaður nefndi fjárfestingar í hjúkrunarheimilum langar mig að taka fram að það eru auðvitað peningar í fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) sem fara í uppbyggingu á hjúkrunarheimilum og það tel ég vera mjög mikilvægt.