150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:41]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020. Mig langar í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið síðustu klukkutímana og þeirra áherslna sem hafa verið lagðar undanfarið að reyna að átta mig svolítið aftur á og draga aftur upp þá stóru mynd sem mér finnst við eigum að horfa á þetta fjárlagafrumvarp í. Fjárlagafrumvarpið endurspeglar markmið ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn skammvinnri niðursveiflu í hagkerfinu í kjölfar samdráttar í ferðamennsku og loðnubrests. Það er gert án þess að hverfa frá áformum um uppbyggingu innviða og grunnþjónustu ríkisins, gert með því að slaka á í ríkisfjármálunum og dregið er úr áður fyrirhuguðum afgangi á rekstri ríkissjóðs. Það verður gert í von um að hagkerfið leiti jafnvægis og nýtt hagvaxtarskeið sé handan við hornið. Leiðarljós þessarar hagstjórnar er að stuðla að stöðugleika og bættum lífskjörum.

Það er hlutverk fjárlagafrumvarpsins í ríkisfjármálunum að sinna hlutverki sínu, að dempa hagsveifluna með lægri skatttekjum, verulegri hækkun framlaga til atvinnuleysisbóta og auknum innviðaframkvæmdum. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt upp með að sveigjanleiki í gengi íslensku krónunnar, sem hefur að undanförnu endurspeglað undirliggjandi hagþróun og lækkandi vexti Seðlabankans, leggist einnig á sömu sveif. Meginvextir bankans hafa aldrei verið lægri. Þá hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt sitt af mörkum til varnar efnahagslegum stöðugleika með nýlegum kjarasamningum sín á milli.

Fjárlagagerðin markast af því að ytri staða þjóðarbúsins hefur sjaldan eða aldrei verið betri. Afgangur hefur verið af viðskiptum við útlönd samfellt frá árinu 2009 og hrein erlend staða var jákvæð sem nam 10% af landsframleiðslu í árslok 2018 og verður mun meiri við fyrsta ársfjórðung eða við uppgjör ársins 2019. Þetta er einstök staða og skuldir ríkissjóðs hafa helmingast frá árinu 2012. Önnur birtingarmynd þessa er aukinn sparnaður heimila og fyrirtækja og lægri skuldastaða þeirra þar sem aukinn er viðnámsþróttur vegna slaka í efnahagslífinu. Við þær aðstæður er það veruleikinn að ríkisfjármálin hafa veitt stuðning við heildareftirspurn samhliða því að svigrúm er gefið innan peningamálastefnunnar til að lækka vexti á réttum tímapunkti í hagsveiflunni. Aukin tiltrú á tökum stjórnvalda á hagstjórninni hefur að sama skapi endurspeglast í góðu lánshæfismati ríkissjóðs og þeim greiningum og rökstuðningi sem þar býr að baki. Sú tiltrú hefur margvíslega þýðingu, ekki síst fjárhagslega. Ríkissjóði hafa aldrei áður boðist jafn góð kjör á skuldabréfamörkuðum en um þessar mundir, hvort sem er í íslenskum krónum eða öðrum myntum. Svigrúm ríkissjóðs til þess að bregðast við hægari gangi í hagþróuninni má þakka ýmsum þáttum. Öguð fjármálastjórn er einn þeirra og einnig stöðugleikaframlög vegna losunar fjármagnshafta. Þá hafa aðrar óreglulegar tekjur á borð við arðgreiðslur verið nýttar til að lækka skuldir ríkisins verulega.

Mikilvægt er að við drögum þetta fram á þessum tímapunkti í umræðunni um fjárlög fyrir næsta ár til að átta okkur á því að við erum að láta fjárlagafrumvarpið vinna sem það sveiflujafnandi tæki sem við höfum tök á að láta það gera. Það getum við gert vegna þess að við höfum einfaldlega haldið skynsamlega á fjármálum á undanförnum árum. Við erum í færum til að geta það og erum að gera það.

Mig langaði, virðulegi forseti, að ræða gjörbreytta stöðu fjárlagafrumvarps. Við höfum núna loksins lokað hringnum í beitingu laga um opinber fjármál. Fjárlagafrumvarpið er ekki lengur það þungamiðjuplagg sem það var til skamms tíma þar sem hulunni var endanlega lyft af við setningu Alþingis á hausti, sem þá var mun seinna en nú. Fjárlagafrumvarpið er núna afurð eða úrvinnsla á samþykktri fjármálaáætlun sem rædd er að vori. Því er ekki lengur um jafn stór tímamót að ræða þegar fjárlagafrumvarp er lagt fram og oftast var á þeim tíma sem ég vísaði til áðan, heldur nánari útfærslu á vel undirbyggðri stefnu.

Ég vil leyfa mér að segja að hvorki er tilefni né ástæða til að þingið fari í jafn fyrirferðarmikla fjárlagaumræðu eða umræðu um fjárlög og hefur verið á undanförnum árum. Við tökum þá stóru umræðu að vori við framlagningu fjármálaáætlunar og úrvinnslu á henni. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við horfum til þess núna þegar við höfum þróað áfram þetta vinnulag. Við erum að komast í þá stöðu að loka því vinnuferli okkar sem við höfum stefnt að í mjög langan tíma.

Það má alveg taka undir þá umræðu sem hefur farið fram í dag um nauðsyn þess að auka innviðafjárfestingar. Það hefur hins vegar ekki verið til skamms tíma sérstök ástæða til þess í þeirri uppsveiflu sem hefur verið á því lengsta hagvaxtarskeiði sem við höfum verið í hingað til. Með nokkuð dramatískum og snöggum hætti dró úr hagvexti. Það varð loðnubrestur. Það varð áfall í ferðaþjónustu.

Ég vil hins vegar segja — og það hefur greinilega og glögglega komið fram í vinnu fjárlaganefndar á undanförnum vikum og mánuðum — að vegna þess hvernig við fengumst við hagspár í vinnu við fjármálaáætlun á liðnu vori og hvernig þær hagspár hafa síðan raungerst og hvernig veruleikinn hefur birst okkur frá þeim tíma hefur ýmislegt fallið með okkur en ekki á móti í þeim efnum. Ég er alls ekki svartsýnn á að samdrátturinn og kreppan verði eins djúp og við óttuðumst í vinnu við fjármálaáætlun í vor. Ég vona að það muni standast.

Það er við slíkar aðstæður sem okkur ber að horfa á að við séum þá alla vega ekki að bregðast við með þeim hætti að kippa að okkur höndum. Það er þess vegna sem opinber fjárfesting er aukin verulega. Það er þess vegna sem eru birt áform í fjárlagafrumvarpinu um 75–76 milljarða opinberar fjárfestingar sem eru 3,8% af vergri landsframleiðslu og hafa þær ekki verið jafn miklar í mjög langan tíma. Það má hins vegar alveg deila um hvort nóg sé gert í þeim efnum og ég get alveg verið í því liði sem vill sjá hraðari fjárfestingu í vegum og öðrum innviðum. Ég get alveg tekið undir það. En við erum að gera þetta af styrkleika en ekki veikleika. Við gerum það vegna þess að við höfum undirbúið ríkissjóðinn undir þá stöðu. Við erum ekki í skuldsettri fjárfestingu núna eins og stundum var fyrr á árum. Við gerum þetta vegna þess að við höfum skilað afgangi og við höfum haldið utan um ríkisfjármálin með mjög ábyrgum hætti. Við höfum rekið ríkissjóð með ágætum afgangi á undanförnum árum og ég vísa í framlagðan ríkisreikning fyrir árið 2018 sem sýnir mjög góða útkomu. Ég ætla meira að segja leyfa mér, virðulegi forseti, að vísa í niðurstöður fjárlaga 2017 sem sett voru við mikinn óróleika í íslenskum stjórnmálum, sem ég ætla ekki að rifja upp í löngu máli. En allt þetta segir okkur að við höfum náð að koma mun traustari böndum á og náð tryggari tökum á beitingu ríkisfjármála, fjárlagagerð og stýringu hinna opinberu fjármála en hefur verið í mjög langan tíma. Við erum alltaf að læra. Við erum alltaf að gera betur og vonandi heldur það áfram.

Forsenda þess að við förum í meiri opinberar fjárfestingar og hraðari hlýtur alltaf að verða að skoða í samhengi við hvort hagkerfið okkar er að rísa og hvort það rís hratt því að við verðum að fara mjög varlega með eldspýturnar þegar nóg er af eldsmati í boði.

Í því samhengi vil ég draga fram mynd fjárlagafrumvarpsins sem hér birtist. Hún er raunverulega afurð af því að okkur hefur tekist á samstilltan hátt, með aðilum vinnumarkaðar, með ábyrgri beitingu ríkisfjármála- og peningastefnu Seðlabankans að búa til þær aðstæður núna að við erum ekki að dýpka kreppu eða dýpka samdrátt. Við erum hins vegar að byggja okkur hægt og rólega upp á nýjan leik og ég trúi að svo muni verða.

Það má ýmislegt ræða um áherslur fjárlagafrumvarpsins. Það verður vinna hv. fjárlaganefndar á næstu vikum og mánuðum, eins og venjan er, og ég ætla ekki að tíunda einstök dæmi sem koma í hugann við lestur á því plaggi. Ýmislegt af því hefur komið fram við 1. umr. Við munum síðan eiga fundi með umsagnaraðilum okkar og gestum.

Ég ætla hins vegar aftur að draga fram þá stóru breytingu sem hefur orðið og er að raungerast í fjárlagafrumvarpinu, að stóra, þunga umræðan um beitingu ríkisfjármála, útgjalda og tekjur fer nú fram að vori en ekki við fjárlagagerðina að hausti eins og hefur verið til skamms tíma. Ég held að á margan hátt endurspegli umræðan í dag þá stöðu og þau sterku tök sem við höfum á ríkisfjármálum og þakka fyrir mjög málefnalegar umræður sem hafa orðið um þetta fjárlagafrumvarp sem rætt er á þessu hausti.