150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði aðallega, sem ég vill minnast á. Það er annars vegar innleiðingin, sem ég hef rosalega mikinn áhuga á. Ég væri til í að heyra skoðun hv. þingmanns á því hvar við erum stödd í hinu svokallaða innleiðingarferli á lögum sem eru í fullu gildi og skoðun á þeim atriðum sem ég hef bent á að vanti og séu alger lykilatriði til þess að hægt sé að segja að við séum að fara eftir lögum um opinber fjármál, séum að starfa samkvæmt þeim skilyrðum sem þar eru sett fram, þar á meðal um kostnaðarábatagreiningu, forgangsröðun og skýrslu, sem vantar, um þróun lýðfræðilegra stærða o.s.frv. á næstu árum og áratugum.

Hitt er síðan athugasemdin um þessa innviðaskuld sem mér finnst æðislegt að farin sé að ná aðeins meira umtali; þetta var ekki til fyrir löngu. Við tökum nefnilega mjög oft ákvarðanir um að greiða niður skuldir út frá þeim kostnaði sem við sjáum af þeim skuldum, en skuldin af innviðunum okkar, eins og hún hefur verið sett fram og hefur komið fram í greinargerðum, er mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf. Það er mikið uppsafnað viðhald. Það er nákvæmlega eins og lán. Vegirnir grotna niður og það eru vextir. Við sjáum ekki nákvæmlega hversu háir þeir vextir eru en ef við sæjum það betur myndum við taka aðrar ákvarðanir, borga niður aðrar skuldir sem kosta okkur þegar allt kemur til alls meira. (Forseti hringir.)

Mér þætti áhugavert að sjá þetta í samhengi við innleiðingarferli á lögum um opinber fjármál.